Sigurður Örn Baldvinsson

Eins og fram hefur komið í fréttum á Trölli.is hafa verið skiptar skoðanir um lausagöngu katta í Fjallabyggð. Trölli hefur lagt sig fram um að birta sjónamið þeirra sem hafa viljað koma skoðunum sínum á framfæri.

Hér að neðan má lesa færslu sem Siglfirðingurinn Sigurður Örn Baldvinsson ritaði vegna umræðunnar að undanförnu.

“Frá landnámi hefur maðurinn gert sig heimakominn í náttúru Íslands og um leið aðlagað hana að sínum þörfum. Breytt henni á margan hátt ýmist til góðs eða ekki, en alltaf með hagsmuni mannsins í fyrirrúmi. Síðustu áratugi hefur viðhorfið verið að breytast smá saman og meiri virðing borin fyrir náttúrunni og öllu lífi sem í henni þrífst.

Samningur Sameinuðu þjóðanna á ráðstefnu í Brasilíu árið 1992 fjallar um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Á heimasíðu Stjórnarráðsins stendur þetta m.a.: „Tilgangurinn með verndun líffræðilegrar fjölbreytni er að styrkja og varðveita til frambúðar þær tegundir sem hafa frá upphafi skapað íslenska náttúru og þrifist hér á landi í árþúsundir …”

Tófan hefur sennilega verið á Íslandi frá lokum ísaldar. Fundist hafa um 3500 ára leifar svo varla telst hún aðskotadýr í íslenskri náttúru. Samt er hún ofsótt linnulaust og réttdræp hvar sem til hennar næst. Hvers vegna? Þegar maðurinn settist hér að flutti hann með sér búfénað, sem kannski mætti kalla aðskotadýr, og vegna þess að tófan var talin ógn við fénaðinn, og þar með afkomu manna, varð að útrýma þessari voðaskepnu. Hún passaði ekki við þær hugmyndir sem menn höfðu um yfirráð sín yfir náttúrunni og eignarhaldi.
Flestir telja sig vera dýravini. En þó ekki vinir allra dýra, sem eðlilegt er, enda mörg þeirra stórhættuleg, en alla vega dýra sem skaða ekki þeirra eigin hag. Helst eru þetta falleg dýr og flestar tegundir spörfugla eru í miklu uppáhaldi hjá mörgum. Kannski vegna þess að þeir þykja huggulegir og myndast vel.

Þessir „myndar”legu litlu fuglar eiga sér óvini og er kötturinn þeim hættulegur, það eru flestir sammála um. En einnig er veðurfar oft þeim erfitt því náttúran getur verið grimm og fáar dýrategundir sem ekki eiga sér óvini í einhverri mynd. Fæðukeðjan er sterk og fáir veikir hlekkir. En veldur heimiliskötturinn því að dýrategundir deyi út? Hefur kötturinn útrýmt einhverri fuglategund á Íslandi?
Ekki virðast vera til tölur um fjölda fugla sem kettir drepa árlega hér á landi og því ekki hægt að fullyrða eitt né neitt. Enginn talning hefur enn farið fram en sveitarfélög landsins fengið boð um að hefja talningu við fyrsta hentugleika. Nokkur sveitafélög banna lausagöngu katta en ekki er ljóst á hverju það bann er byggt eða hvort það séu einhverjar tölur sem styðja það bann.

En í útlöndum kunna menn að telja segja fróðir menn. Sérstaklega í USA. Þar fundu teljarar t.d. 6,3 til 22, 3 milljarða af spendýrum (22 þúsund milljónir og gott betur)sem þeir voru vissir um að kettir hefðu drepið og teljurunum fannst þetta vera nógu nákvæm „talning”. Ekki gátu þeir þess hvort þetta voru heimiliskettir að verki. Ekki heldur hvaða spendýrategundir þetta voru.

Í Finnlandi kunna menn líka marga tölustafi, segja fróðu mennirnir. Þar „er talið” að lausagönguheimiliskettir drepi árlega a.m.k. 12 milljónir dýra, þar af a.m.k. 1,7 milljónir fugla.

Hvernig teljararnir bera sig að hef ég ekki nægilegt ímyndunarafl til að skilja, en helst hvarflar að mér að hér sé um huglægt mat og ágiskun að ræða. Á svo erfitt með að trúa að teljararnir hafi staðið kettina að verki.

Gömul saga segir frá landsþekktum fuglafræðingi við talningu fugla í Drangey. Hann fékk trillukarl til að sigla með sig umhverfis eyjuna og horfði stíft í bjargið á milli þess sem hann saup á vasapela. Þegar hringnum var náð „taldi” hann að hérum bil svona margir fuglar væru í og við eyjuna. Kannski fleiri, kannski færri.

Teljararnir „telja” líka að kötturinn drepi alls kyns önnur dýr og að hann sé einn af hættulegustu óvinum hryggdýra þar sem hann er „framandi tegund í vistkerfum jarðar”.

Þetta vekur upp spurningar hjá mér. Ef gert er ráð fyrir að lausagönguheimiliskettir drepi nánast allt sem þeir ráða við, hví hefur ekki verið skipulögð jafn óvægin herferð til að vernda önnur dýr fyrir þeim? Eru það hagsmunir einhverra að vernda eingöngu smáfugla? Hví þessi heift?

Á átjándu öld voru uppi merkilegar kenningar um samband manna og dýra. Maðurinn hefði algera sérstöðu í sköpunarverkinu en önnur dýr væru ekki merkileg nema þau hentuðu honum. Og það gæfi manninum leyfi til að nota dýrin að vild. Upphafsmaður þessara kenninga er talinn vera heimspekingurinn Immanuel Kant.

Þessi sjónarmið eru vonandi að mestu horfin og mannfólkið farið að viðurkenna tilverurétt dýranna. Í svonefndri vistguðfræði er bent á að maðurinn sé hluti af vistkerfi sem tengir saman allt sem lifir. Menn, dýr og plöntur. Allt líf sé skapað af Guði og maðurinn sé skyldugur til að virða réttindi dýra þótt það skili ekki ávinningi fyrir hann sjálfan.

Í umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar segi m.a.: „…Lífið og tilveran öll er sköpunarverk Guðs. Allt sem Guð skapar er gott…”.

[Tilvitnun í kirkjuþing 2009: https://timarit.is/page/6680268?iabr=on#page/n93/mode/2up]