Sjómennirnir Halldór Gústaf Guðmundsson og Gunnar Þór Óðinsson sem pyntuðu Grænlandshákarl til dauða og deildu myndbandi af verknaðinum á Facebook hafa verið reknir.

Um borð var þriðji skipverji, Árni Valgarð Stefánsson, kallaður Árni Biddu. Hann er sá eini í myndbandinu sem ekki sést í mynd og hefur hann einnig verið rekinn.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá útgerðarfélaginu Sæfelli, sem er eigandi og útgerðaraðili Bíldseyjar SH 65, en þar um borð átti verknaðurinn sér stað. Sjómennirnir skáru sporðinn af skepnunni og hlógu sig máttlausa yfir verknaðinum.

Sjá einnig á dv.is

 

Hér má sjá umrædd myndskeið.

 

Yfirlýsing útgerðarinnar Sæfells er svohljóðandi:

„Við eigendur og útgerðaraðilar Bíldseyjar SH 65 hörmum og fordæmum þann óhugnanlega atburð sem kemur fram í myndbandi sem fylgir frétt DV í dag.

Við höfum hingað til reynt að  tileinka okkur góð vinnubrögð og ábyrga umgengni um auðlindina og lífríkið almennt.

Þessi atburður er algjörlega óréttlætanlegur og þeir sem stóðu þarna að verki eiga sér engar málsbætur.

Eigendur og útgerðaraðilar Bíldseyjar SH 65 eiga ekki annan kost en að hafna frekari vinnuframlagi manna sem sýna af sér slíka hegðun.“