Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember,  samkvæmt tillögu menntamálaráðherra frá árinu 1996. Þann dag eru árlega veittar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslensks máls og efnt til margvíslegra menningarviðburða.

Dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember, var haldinn hátíðlegur í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Íslenskukennarar skólans undirbjuggu dagskrá sem endaði með því að nemendur völdu rafrænt fallegasta íslenska orðið úr tilnefningum þeirra sjálfra.

Kennararnir settu upp trönur þar sem nemendur skrifuðu fallegasta orðið, skrýtnasta orðið, það orð sem þau nota oftast og síðan fengu þau að spreyta sig á að búa til ný orð.

Það á einkar vel við á þessum degi sem kenndur er við Jónas Hallgrímsson.

Jónas var afkastamikill nýyrðasmiður og fjöldamörg orð sem hann smíðaði eru löngu orðin innmúruð í málið. Má þar nefna orð eins og aðdráttarafl, þjóðareign, baksund, efnafræði, líkindareikningur, himingeimur og meltingarfæri.

Það voru hinsvegar orðin rauður og limur sem nemendur MTR völdu fegursta orð íslenskrar tungu. 

Fleiri myndir frá deginum.