Starfsfólk Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði hefur ekki setið auðum höndum þessa vikuna, eftir vatnsflóðið um síðustu helgi.

Þegar það tókst að tæma Njarðarskemmu af vatni tók við undirbúningur og skipulagning á því hvernig skyldi pakka niður sýningunni og tæma húsið.

Gránu var snögglega umturnað í bráðabirgða safngeymslu og sýningin í Njarðarskemmu kortlögð og ljósmynduð í bak og fyrir.

Síðustu daga hefur starfsfólkið notið aðstoðar frábærra kollega frá Byggðasafni Skagafjarðar, Flugsafni Íslands og Minjasafninu á Akureyri við að pakka niður sýningunni og hefur heldur betur verið gengið rösklega til verks.

Þau eru afskaplega þakklát fyrir hjálpina, velvildina og góðu kveðjurnar sem hafa borist víða að og halda ótrauð áfram.

Myndir/Síldaminjasafn Íslands