Snemma í vor var mikið plastrusl úr Héðinsfjarðarfjöru flutt til förgunar á Siglufirði. Meðal annars eitt hundrað úttroðnir netpokar eða u.þ.b. 7-10 rúmmetrar og var afrakstur vetrarsöfnunar Lisu Dombrowe og Ragga Ragg.

Hreinsunin hélt svo áfram í sumar þegar vinir þeirra og stuðningsfólk kom til aðstoðar á Örkinni Gunna Júl 24. júlí. Nærri tuttugu manns sigldu þá til hreinsunar í Héðinsfirði og voru plokkaðir um 6 rúmmetrar af plasti – hluti af því smágert brotaplast, komið nálægt frumeindum sínum.

Eftir geysimikla hreinsun og flutning á plasti frá Héðinsfirði árin 2020 og 2021 (60-70 rúmm.) töldu einhverjir að nú færi þetta að verða búið – að Héðinsfjörður yrði fullhreinsaður. En það var öðru nær. Í haustbrimum 2021 kom mikið plast undan rekaviðardrumbum sem rótuðust til sunnan fjörukambanna.

Von er enn til þess að ekki sé mikið eftir af fjöruplasti Héðinsfjarðar sem að mestu hefur safnast þar utan af hafi um áratuga skeið – en áfram þarf að halda vökunni því enn eru umhverfissóðar á ferð.

Hvað sem öðru líður er ástæða til að þakka Ragga og Lísu enn og aftur fyrir sitt ótrúlega hreinsunarframtak síðustu ára. Af minna tilefni hefur fólki verið veitt heiðursverðlaun!

– ök

Frá hreinsun í Héðinsfjarðarfjöru í ágúst 2021 – mynd: HÖ


Hluti leiðangursfólks í júlí 2022 – ljósm: ÖKForsíðumynd: Raggi og Gestur eftir flutning suður yfir Héðinsfjarðarvatn í nóv. 2020 – mynd: LD