Greinin var birt á lifdununa.is

Samband okkar við uppkomin börn getur verið mismunandi og stundum verða alger vinslit milli foreldra og barna um lengri eða skemmri tíma. Á systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum, aarp.org, birtist grein um þetta efni eftir Mary W. Quigley blaðamann sem hér fer á eftir í endursögn.

Foreldrar ársins

Þó við búumst kannski ekki við að verða valin foreldrar ársins, vegna þeirra áratuga sem fóru í uppeldi barnanna okkar, þá finnst okkur líklega flestum að okkur hafi tekist nokkuð vel upp. En stundum eru uppkomnu börnin annarrar skoðunar og kenna okkur um allt sem hefur farið úrskeiðis í lífi þeirra.  Það er þá ýmist vegna þess sem við gerðum, eða þess sem við gerðum ekki.

Alverst að fá ekki að hitta barnabörnin

Í stöku tilvikum ganga börnin svo langt að telja foreldra sína óalandi og óferjandi og slíta sambandi við þá. Í vægari tilvikum getur óánægjan lýst sér í ákveðnum mótþróa, þannig að þau mæta til dæmis ekki í fjölskylduboð, en sum ganga svo langt að loka algerlega á foreldra sína. Það alversta er þegar uppkomin börn banna foreldrum sínum að hitta barnabörnin.

Nákvæmt syndaregistur

Sumir foreldrar hafa ekki hugmynd um meinta galla sína, en öðrum er skýrt nákvæmlega frá þeim syndum sem þeir hafa drýgt. Þeir hafi verið stjórnsamir, haft of sterkar skoðanir, verið sjálfselskir, kröfuharðir og þar fram eftir götunum. Á bandarískum vefsíðum aldamótakynslóðarinnar  er hægt að lesa fyrirsagnir eins og  „Níu merki um að þú eigir slæma foreldra“.

Fara yfir mörkin

„Mörk“ er eitt af uppáhaldsorðum aldamótakynslóðarinnar, segir sálfræðingurinn Joshua Coleman og höfundur bókarinnar When Parents Hurt: Compassionate Strategies When You and Your Grown Child Don’t Get Along. „Margir foreldrar eru taldir slæmir, þar sem þeir þekki ekki mörkin gagnvart uppkomnum börnum sínum“, segir hann. Þetta getur komið upp þegar foreldrar reyna að vera nánir vinir uppkominna barna sinna, en það leiðir oftar en ekki til vonbrigða og ágreinings. Aðrar ástæður fyrir því að samband foreldra og uppkominna barna verður erfitt, geta verið skilnaður foreldra eða að foreldrarnir eru ósáttir við lífsstíl, starfsval eða makaval barnanna sinna. Þá getur ósætti líka orðið ef foreldrarnir eiga við tilfinningaleg eða geðræn vandamál að stríða.

Fimm ráð til foreldra

Coleman segir að það sé ekki víst að þarna sé foreldrunum einum um að kenna. En hvað er best að gera ef vandamálum barnanna er öllum dengt yfir á foreldrana? Hann gefur eftirfarandi ráð.

Reynið að skilja vandann og forðast að fara í vörn.  Foreldrar sem segjast hafa gert sitt besta tala fyrir daufum eyrum. „Börnin eru að segja þeim mikilvæga hluti um tilfinningar sínar og hvernig þau upplifa sambandið við foreldrana og um það hvernig hlutirnir eru sagðir. Hlustið án þes að dæma“, segir Coleman.

Leitaðu sannleikans. Gerðu þér grein fyrir að þú og uppkomna barnið eruð að rifja upp sömu aðstæður frá mismunandi sjónarhornum. „Foreldrar nútímans eiga að vera börnunum allt. Það er mjög auðvelt fyrir uppkomnu börnin að koma í dag og segja foreldranir hefðu átt að veita þeim meiri stuðning eða minni stuðning“, segir Coleman. „Þeir hefðu átt að sjá að þau voru niðurdregin, eða að þau hefðu þurft betri tilsögn, og kannski er það rétt hjá þeim, þegar við horfum í bakspegilinn“.

Taktu eigin tilfinningar út fyrir sviga. Þegar uppkomna barnið kvartar til dæmis yfir því að þú hafir alltaf verið í vinnunni, þegar það var að alast upp, ekki detta í þann pytt að fara að benda á að þú hafir þurft að vinna til að hafa efni á að mennta það og veita því ýmislegt annað. Reyndu frekar að segja. „Já, þetta varð til þess að ég missti af mörgu sem var mikilvægt fyrir þig. Ég vildi að ég hefði verið meira til staðar og sé núna hvaða áhrif þetta hafði á þig“.

Taktu hlutunum rólega. Það tekur tíma að ná aftur sambandi við uppkomin börn sem hafa lokað á foreldra sína og stundum þarf að leita aðstoðar. Stundum verður barnið sáttfúsara ef það fær tíma til að upplifa tímabundið hvernig það er ef foreldrarnir eru ekki til staðar. En Coleman segir að foreldrar þurfi að fara varlega. „Ef barnið hefur einu sinni lokað á foreldra sína, getur það gert það aftur. Sambandið verður viðkvæmara“.

Skrifið bréf. Ef uppkomið barn neitar að vera í sambandi við foreldri, leggur Coleman til að foreldrið skrifi því bréf, án þess þó að vera í vörn, þar sem reynt er að skilja ástæðurnar fyrir því að barnið sleit sambandinu. „Ef þú færð ekki svar, ekki gefast upp, sendu aftur bréf eftir sex vikur og eftir það, kannski á nokkurra mánaða fresti.  Ekki gefast upp“ segir hann.