Á morgun, laugardaginn 12. júní fer fram fyrirlestur í Gránu. David Kampfner kynnir doktorsverkefni sitt, sem fólst í að skoða hvernig byggingar þar sem áður var atvinnustarfsemi (iðnaðarminjar) eru endurnýttar í dag í þágu annarrar starfsemi.


Dæmi um slíkar byggingar og breytta starfsemi í þeim eru síldarverksmiðjan á Djúpavík á Ströndum, Nes-listamiðstöð á Skagaströnd og Síldarminjasafnið (Róaldsbrakki).

Við rannsóknina skoðaði David endurnýttar iðnminjar á Íslandi og lagði sérstaka áherslu á að kanna áhrif þeirra á efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar breytingar. Sextán minjastaðir á Íslandi voru skoðaðir, sem allir eru á ólíku stigi aðlagaðrar endurnotkunar, meðal annars með tilliti varðveislu.

Hann greindi lykilatriði sem stuðla að árangursríkri aðlögun minjastaða, tengsl og sameiginlega eiginleika þeirra til að aðlaga og forgangsraða minjavernd þegar kemur að byggþróun, framþróun ferðamennsku og skipulagsmálum.

Hann leggur einnig fram tillögu að stefnumótunum sem innihalda aðgerðir til að styðja við varðveislu tuttugustu aldar minja, einkum bygginga.

Fyrirlesturinn hefst kl. 15:00 og fer fram á ensku. Hann er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.