Það er ýmislegt sem gerist í sveitinni, segir á Facebook síðu Blöndu. Rétt eftir hádegi síðastliðinn föstudag fengu félagar í Björgunarfélaginu Blöndu útkall um að dráttarvél hefði fallið niður um ís á Laxárvatni.

Bóndi sá sem vélinni ók komst þú út áður en hún sökk niður í vatnið. Vaskur hópur félaga úr Blöndu fór með tæki og tól á staðinn til að byrja aðgerðir.

Þegar búið var að meta umfang aðgerðarinnar var brugðið á það ráð að fá lánaða beltagröfu sem stóð við Laxárvirkjun. Steypustöð Skagafjarðar Ehf á þakkir skilið fyrir að lána vélina því án hennar hefði aðgerðin tekið mikið lengri tíma með keðjusögum ofl.

Þetta fór allt eins vel og það gat farið og var dráttarvélinni komið á verkstæði í afvötnun og þurrkun.

Á sömu Facebook síðu er skemmtileg færsla sem segir frá því að upp úr 1950 óku mjólkurflutningamenn meira og minna heilan vetur eftir vötnunum vegna ófærðar á vegum. Farartækið var 10. hjóla G.M.C. hertrukkur, útbúinn með langar tvöfaldar keðjur sem náðu á milli hjóla á afturhásingunum, þá var einnig kröftugt spil og veitti ekki af.

 

Myndir og heimild: Facebook síða Björgunarfélagsins Blöndu