Andri Hrannar Einarsson dvelur hluta úr ári í Maspalomas á Gran Canaria. Hann hefur verið eins og allir íbúar Spánar í ströngu útgöngubanni sem var aflétt að hluta þann 2. maí. Mega íbúar núna fara út að ganga eina klukkustund á dag og fara ekki lengra en kílómetra frá heimili sínu.

Eins og við mátti búast var það stór stund fyrir Andra þegar hann fór í sinn fyrsta göngutúr í 49 daga og segir frá því hér að neðan í máli, myndum og myndbandi.

Vinsælu Íslendingastaðirnir eru lokaðir, stræti og torg mannlaus. Eins og sjá má í myndbandi og myndum er Maspalomas eins og draugabær.

Tilkynnt í kallkerfi hótelsins að allir ættu að fara tafarlaust í sína íbúð

Að vera í útgöngubanni er sérstök tilfinning og nokkuð sem fæstir hugsuðu um þegar skálað var fyrir nýju ári, því herrans ári 2020. Þessu ári og þessum fordæmalausu tímum mun enginn gleyma. Frelsið var eitthvað sem ég pældi lítið í, ég bara kom og fór eins og ég vildi án þess að spá í hvort ég mætti fara eða ekki, jú ég var frjáls maður. 

Það var því ákaflega skrítið að heyra tilkynnt í kallkerfi hótelsins að allir ættu að yfirgefa sundlaugargarðinn og fara tafarlaust í sína íbúð og vera þar. Þetta var sunnudaginn 15. Mars en þá hafði skollið á útgöngubann aðfaranótt sunnudagsins. Skyndilega var fólki bannað að yfirgefa íbúðir sínar og var í raun svipt frelsi sínu. 

Útgöngubanninu var fylgt eftir með ákveðni af her- og lögreglumönnum með alvæpni og þyrlum

Dagarnir liðu einn af öðrum og það borgaði sig að halda sig heima og hlýða Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar því útgöngubanninu var fylgt eftir með ákveðni af her- og lögreglumönnum með alvæpni og þyrlum sveimandi yfir. Og ef einhver óhlýðnaðist þá þurfti sá hinn sami að borga það dýrum dómi, allt uppí 2000 evrur í sekt.

Dagar liðu eins og í Groundhog day

Þessir dagar liðu eins og í Groundhog day, sama sama aftur og aftur. Ég var oft mjög ringlaður í hvaða dagur var. En svo fór að birta til og eftir 49 daga í útgöngubanni mátti ég fara út! Mamma Mía hvað ég varð spenntur en á sama tíma smá kvíðinn. 

Reglan er sú að ég má velja á milli þess að fara út milli 6:00 – 10:00 eða 20:00 – 23:00 en samt aðeins í eina klukkustund og ekki meira en kílómetra frá heimilinu. 

Yumbo eins og drauga moll

Klukkan 19:50 laugardaginn 2. Maí var ég tilbúinn í þetta, kominn með hanska og grímu og þurfti svo að bíða þannig í 10 mínútur. Mikið var gott að labba út um aðaldyrnar og út á gangstéttina og finna að ég var að endurheimta frelsið að nýju. Ég ákvað að labba sem leið liggur að Yumbo center og sjá hvernig umhorfs var þar en venjulega iðar allt af mannlífi og tónlist þar en nú var öldin önnur, Yumbo var drauga moll og sama var um aðra staði að segja. 

Ég hef verið all oft hérna á Gran Canaria en aldrei hef ég upplifað staðinnn eins og núna. Dauðaþögn allstaðar, kaffihús og matsölustaðir lokaðir og fáir á ferli. Það er í raun allt lokað og framtíðin hjá mörgum af þessum stöðum mjög óljós.

Það er því óhætt að segja að þessir tímar eru algerlega fordæmalausir og mikið verk framundan að koma hjólum atvinnu- og mannlífs í gang aftur. En það er smá að birta til og vonandi, hægt og örugglega munu hlutir smella í sitt horf og við getum farið að knúsa hvert annað!

Ég var með símann á lofti og smellti af nokkrum myndum af tómum strætum, verslunarmiðstöð, börum og veitingastöðum.

En við munum komast í gegnum þetta … ÁFRAM VIÐ!Hægt er að smella á myndir til að sjá þær stærri.