Á facebooksíðu Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings eru áhugaverðar og fróðlegar fréttir af veðri og öðrum málefnum sem því tengis. Í dag má finna eftirfarandi frásögn af veðrinu í dag.

“Enn og aftur sést hve mikið snjóar á endanum oft í NNA og NA-átt sem við fyrstu sýn virðist tilþrifalítil. Hún mælist hins vegar ekkert sérlega vel sem úrkoma í mæla.

Ófærð var víða austanlands og í morgun voru þannig flestar leiðir út frá Egilsstöðum ófærar. Mikið snjóaði t.d. á Siglufjarðarvegi og inn í Eyjafirði, skafrenningur og éljagangur fyrir vestan. Snjóflóð féllu á vegi í tveimur landhlutum og þannig mætti áfram telja.

Vissulega komu lægðardrög af hafi við sögu hér við landið þannig að bæði bætti í ofankomu og vind um tíma. Drögin voru lúmsk og þurfti að fylgjast náið með þeim. Sennilega féllu allt að 80- 100 mm úrkomu austanlands af nýjum snjó frá því í fyrrinótt og þar til í morgun

Sjálfur reyndi ég að koma þessu á framfæri, var í góðu sambandi við vaktstöðvar Vegagerðinnar eins og þjónustu minni hjá Veðurvaktinni er uppálagt. Sendi út ábendingu veðurfræðings í gærmorgun um snjókomu og skafrenning meira og minna norðan- og austanlands.

Fjölmiðlarnir sýndu hins vegar ófærð og verulegum samgöngutruflunum austanlands litla athygli, þó svo að þjóðbrautin Fagradalur hefði verið ófær í nokkrar klst, rétt eins Mývatns- og Möðrudalsöræfi sem og fleiri vegir eystra.

Ekki fyrr en ýtt var beinlínis á þá í vetrarsólinni og hæglætinu hér í bænum. Þetta er mér nokkurt umhugsunarefni og ekki í fyrsta sinn sem fjölmiðlar eins og RÚV sofa beinlínis á verðinum. Þarna er raunverulegt hlutverki fjölmiðlunar og fréttagildið líka ótvírætt. Ekki fyrir það, mbl.is og visir.is voru heldur ekki með fréttir af ástandi mála fyrr en seint um síðir ! Stundum er sagt að miðlarnir elti hvern annan. Það á þá líka við í þögninni…”

Sjá heimasíðu Einars Svinbjörnsonar: Blika.is