Verkleg efnafræði er spennandi og í raungreinastofu Menntaskólans á Tröllaskaga eru ýmsar spennandi græjur. Tölfræðinemendur Unnar Hafstað stærðfræðikennara höfðu um skeið rennt hýru auga til þessara tækja og báðu um að fá að gera efnafræðitilraunir.
Svo vill til að systir kennarans er með barnapíu sem er efnafræðingur. Hún heitir Lucie Tavan og kemur frá Frakkalandi. Eftir tveggja mánaða dvöl á landinu er hún orðin svo hrifin af Íslandi að hana langar að finna sér starf í sínu fagi sem efnafræðingur.
En á dögunum kom hún í skólann og aðstoðaði fyrrnefnda tölfræðinema við að gera efnafræðitilraunir. Hún vissi auðvitað ekki hvaða efni væru til í skólanum en var vel undirbúin með plan A, B og C. Úr varð tilraun þar sem nemendur blésu upp smokka og gúmmíhanska með því að blanda saman ediki og natroni í réttum hlutföllum. Öll skemmtu sér konunglega enda kærkomin hvíld frá flóknum tölfræðidæmum að fá að leika sér með efni og tilraunaglös.
Stefnt er að því að halda áfram með tilraunir með vorinu á óskalistanum er að gera bombu utandyra. Það er framtíðarmúsik sem vonandi verður að veruleika með hækkandi sól.
Fleiri myndir hér af þessum skemmtilega tölfræðitíma.
Mynd/Gísli Kristinsson