Bóklistaverk Brynju er einnig til sýnis.

Listakonan Brynja Baldursdóttir opnar sýningu sína “Sjálfsmynd” í Listasafninu á Akureyri í dag laugardaginn 6. júní kl. 12:00. Sýningin stendur yfir til 16 ágúst.

Brynja segir um sýninguna „Listsköpun mín sprettur upp af viðleitni minni til að myndgera innra landslag mannsins, hið sammannlega og einstaka sem hluta af stærri heild. Sjálfsmyndaserían er summa þriggja þátta; líkama, hugar og sálar.“

Á sýningunni eru einnig til sýnis bóklistaverk sem Brynja er að gefa út í takmörkuðu upplagi. Það er auðvitað alltaf frétt hjá þessari bókaþjóð þegar kemur út bók og mun Trölli.is segja nánar frá þeim síðar.

Brynja Baldursdóttir (f. 1964) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1982-1986. Hún stundaði mastersnám við Royal College of Art í Lundúnum 1987-1989 og Ph.D. nám við sama skóla 1989-1993. Brynja hefur sýnt víða hér heima og erlendis. Hennar helstu listform eru bóklist og lágmyndir. Eftir hana liggur fjöldi bókverka, bæði  bóklistaverk og hannaðar bækur. Hún hefur unnið til ýmissa verðlauna fyrir grafíska bókahönnun ásamt því að vera tilnefnd til Menningarverðlauna DV 1993 fyrir bóklist.

Brynja Baldursdóttir býr á Siglufirði og vinnur að listsköpun sinni þar.

Einnig opna fjórar aðrar sýningar í Listasafninu á Akureyri í dag og má lesa nánar það á vefsíðu safnsins.