Marta Szebehely, prófessor emeritus í félagsráðgjöf við Stokkhólmsháskóla, flutti erindi á sameiginlegum fundi ASÍ og BSRB um markaðsvæðingu öldrunarþjónustu 10. júní sl. Marta er margverðlaunaður fræðimaður sem hefur rannsakað skipulag og einkavæðingu öldrunarþjónustu í Svíþjóð í norrænum og alþjóðlegum samanburði.
Markmiðið með norrænni velferðarþjónustu er að þjónustan tryggi jafnt aðgengi allra að hágæða þjónustu, óháð efnahag og félagslegri stöðu. Öldrunarþjónusta á Norðurlöndunum er fjármögnuð af opinberu fé og var lengi vel einungis veitt af opinberum aðilum. Það hefur þó breyst á sl. áratugum og nú er um 20 prósent þjónustunnar í Svíþjóð og Finnlandi hagnaðardrifin en innan við 5 prósent í Danmörku og Noregi.
Útvistun þjónustunnar í Svíþjóð hófst í kjölfar efnahagskreppunnar í upphafi tíunda áratugar síðustu aldra og miðaði fyrst og fremst að kostnaðarlækkun. Stærri fyrirtæki voru í sterkustu stöðunni til að keppa um verð og í dag eru tvö stór einkafyrirtæki með um helminginn af einkavæddum markaði öldrunarþjónustunnar sem einnig veita þjónustu til t.d. fólks með fötlun, barnaverndargeirans og hælisleitenda. Þessi fyrirtæki eru mjög sterk á markaði og í dag byggja þau sjálf húsnæði fyrir starfsemina og veita þjónustuna. Á sama tíma dregur úr samkeppni því erfiðara reynist fyrir nýja aðila að komast inn á markaðinn.
Viðbrögðin við þessari samþjöppun voru að auka valfrelsi notenda. Frá 2009 hefur því öllum verið frjálst að veita öldrunarþjónustu sem standast ákveðin viðmið. Litlum fyrirtækjum fjölgaði mikið en gæðin voru í mörgum tilfellum of lítil. Þessu vandamáli var mætt með löggjöf árið 2019 og fyrirtækin verða nú að fá leyfi frá opinberum eftirlitsaðilum til að geta rekið þjónustuna. Áður gilti það eingöngu um hjúkrunarheimilin. Fjöldi þjónustuveitenda veldur ýmiskonar vandræðum fyrir því mörg fyrirtæki lifa ekki af samkeppnina og verða að loka sem veldur notendum miklum vandræðum, fjöldi fyrirtækja torveldar val notendanna og eftirlitsmöguleika yfirvalda en sviksamlegt athæfi er ekki óalgengt. Þjónustan er þó ekki hagkvæmari en kostnaður við eftirlit hefur aukist.
Tekjulágir reiða sig á opinberu þjónustuna
Frá 2007 hefur fólk notið skattaafsláttar vegna heimilis- og umönnunarþjónustu. Það eru frekar þeir tekjuhærri sem hafa nýtt sér þjónustuna og kaupa viðbótarþjónustu en tekjulægra fólk reiðir sig frekar á opinbera þjónustu. Hugmyndin um jafnt aðgengi er því í hættu og ójöfnuður meðal eldri borgara eykst. Samhliða einkavæðingunni hefur opinbera þjónustan dregist saman og hlutverk fjölskyldunnar í umönnun aukist, sérstaklega kvenna.
Í Svíþjóð er meirihluti almennings á móti hagnaðardrifinni öldrunarþjónustu en stjórnmálamenn á hægri vængnum eru henni almennt fylgjandi. Þrátt fyrir þetta er mikill skortur á kostnaðartölfræði fyrir öldrunarþjónustuna eftir rekstrarformi.
Samþjöppun í einkavædda hluta þjónustunnar gerir stóru fyrirtækin mjög áhrifamikil þegar kemur að stefnumótun og umræðan um öldrunarþjónustu hefur breyst. Talað er viðskiptavini en í raun er fólk ekki að stunda viðskipti heldur í þörf fyrir lífsnauðsynlega umönnunarþjónustu sem á að byggja á almennum réttindum.
Afleiðingar markaðsvæðingar þjónustunnar voru í byrjun lægri kostnaður en gæðin ollu áhyggjum. Í dag er kostnaðarliðurinn ekki ræddur og upplýsingar um kostnað eru ekki aðgengilegar en kostnaður vegna eftirlits hefur aukist. Gæðin virðast heldur ekki hafa aukast. Þjónustan þarf að vera tímanleg, samfelld og sveigjanleg. Í markaðshluta þjónustunnar er mönnun minni, minna um fastráðningar og þjálfun. Ekki er þó hægt að meta mun í ánægju notendanna milli rekstrarforma. Fólk sem er að velja öldrunarþjónustu á erfitt með að meta gæðin og er í viðkvæmri stöðu og mjög háð þjónustunni.
Er verið að svelta opinbera öldrunarþjónustu á Íslandi til að réttlæta einkavæðingu?
Svíþjóð og Finnland hafa gengið mun lengra í hagnaðardrifinni þjónustu en Danmörk og Noregur. Kreppan í Svíþjóð og Finnalandi í byrjun tíunda áratugarins olli því að stjórnmálamenn leituðu leiða til að draga úr kostnaði en í Danmörku og Noregi var staðinn vörður um óhagnaðardrifnu þjónustuna auk þess sem verkalýðshreyfingin barðist gegn einkavæðingu.
Í samræðum Mörtu Szebehely, Drífu Snædal, forseta ASÍ, og Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanns BSRB, að erindi loknu kom fram að einkavæðing öldrunarþjónustunnar er að aukast á Íslandi og að mismunandi fjárhagsstaða aldraða hafi áhrif á möguleika þeirra til þjónustu. Einkavæðingin hefur líka áhrif á kjör starfsfólksins. T.d. leiddi nýleg einkavæðing hjúkrunarheimila á Akureyri strax til lækkunar launa sem nemur 10-20 prósentum. Verið sé að svelta opinberu þjónustuna á Íslandi til að réttlæta einkavæðingu.
Marta benti á að Norðmenn kokgleyptu ekki hugmyndir Thatcherismans í Bretlandi eins og Svíar heldur hófu þeir umræður um þjónstuna milli sveitarfélaga, notenda, fjölskyldna og starfsfólks. Þetta er til eftirbreytni því í Svíþjóð hafa sveitarfélögin ekki verið góðir atvinnurekendur. Ef svo hefði verið væri staðan væntanlega önnur í dag.
Opinbert fé er nýtt til að reka hagnaðardrifna þjónustu án þess að yfirsýn um notkun fjármunanna sé til staðar. Marta hefur lagt til að skilyrða verði að ákveðið hlutfall af framlögunum fari í launagreiðslur til almennra starfsmanna. Það bætir þjónustuna, tryggir betri laun og dregur úr hagnaði.
Líkt og í Svíþjóð eru það ekki notendurnir á Íslandi sem eru að kalla eftir markaðsvæðingu þjónustunnar. Það eru því þeir sem hagnast á einkarekstri sem hafa knúið á um kerfisbreytingar. Ef vilji er til að auka valfrelsi í öldrunarþjónustu er mikilvægt að leggja áherslu á óhagnaðardrifin rekstrarform í stað markaðsvæðingar og þeirri arðsækni sem henni fylgir.