Ástæða fjöldadauða svartfugla fyrr í þessum mánuði er ekki ljós en fuglaflensa greindist ekki í þeim sýnum sem tekin voru úr fuglunum.

Matvælastofnun fylgist með þróun fuglaflensufaraldurs sem geisar í Evrópu um þessar mundir og er í sambandi við sérfræðinga í öðrum löndum í því sambandi. Greining á fuglaflensu á Nýfundnalandi gefur vísbendingar um að veiran geti hafi borist með farfuglum frá Evrópu sem hafa viðkomu á Íslandi. Fuglaeigendur þurfa að vera viðbúnir því að herða þurfi sóttvarnir á vormánuðum.

Í janúarmánuði varð vart við mikinn dauða svartfugla við strendur landsins. Ekki er vitað hvað veldur því að fuglarnir hríðfalla en mjög ólíklegt er að um fuglaflensu sé að ræða. Líklegasta skýringin er hungur þótt ekki sé hægt að fullyrða að það sé eina skýringin. Í þeim sýnum sem tekin voru á Austurlandi úr hræjum af álkum, langvíum og haftyrðlum greindust ekki fuglaflensuveirur.

Í lok síðasta árs kom upp skæð fuglaflensa af gerðinni H5N1 í litlum alifuglahópi á Nýfundnalandi í Austur-Kanada. Á svipuðum tíma, nálægt sýkta búinu, fannst sama veira í dauðum svartbaki. Í alþjóðlegri rannsóknarskýrslu sem birt var 13. janúar sl. kemur fram að erfðafræðilegar greiningar á veirunni benda til þess að hún hafi borist til Austur-Kanada frá Evrópu síðastliðið vor. Líklegast er að veiran hafi borist með farfuglum frá sýktum svæðum á meginlandi Evrópu um Ísland til Grænlands og áfram til Austur-Kanada. Þessi greining á Nýfundnalandi styrkir það mat sérfræðinga að skæðar fuglaflensuveirur geti hafa borist til Íslands þó þær hafi ekki fundist í þeim sýnum sem rannsökuð hafa verið.

Í Evrópu geisar nú fuglaflensufaraldur í villtum fuglum og alifuglum með svipuðum þunga og undangengna vetur, nema að nú er gerðin H5N1 ríkjandi. Matvælastofnun fylgist grannt með stöðu og þróun faraldursins.

Þeir sem halda alifugla þurfa aftur að búast við því að í vor þurfi að halda alifuglunum í lokuðu gerði undir þaki til að forða þeim frá hugsanlegu fuglaflensusmiti.

Enn eru litlar líkur á að fólk geti smitast af þeim veirum sem finnast í Evrópu en Matvælastofnun hvetur til almennra sóttvarna við handfjötlun villtra fugla og fuglahræja.

Í ljósi fyrr nefndra greininga á skæðri fuglaflensu í Austur Kanada, er full ástæða til að vakta tilvist fuglaflensu í villtum fuglum hér á landi í vetur þrátt fyrir að farfuglatímabilið sé ekki hafið. Almenningur er þess vegna beðinn um að tilkynna til Matvælastofnunar þegar villtur dauður fugl finnst. Best er að gera það með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar. Þegar tilkynning berst metur stofnunin hvort taka skuli sýni úr fuglinum. Ef taka þarf upp dauðan fugl skal það gert með einnota hönskum og hann settur í plastpoka eða með því að stinga hendi í plastpoka og taka fuglinn upp með pokanum og draga pokann svo yfir fuglinn og loka fyrir.


Skoða á mast.is