Síldarævintýrið verður að venju á Siglufirði um verslunarmannahelgina.

Síldarævintýrið er fjölskylduhátíð og markmiðið er að skapa vettvang fyrir bæjarbúa á Siglufirði til að koma saman og gleðjast sem og að kynna allt það frábæra sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða í menningu, mat og drykk að ógleymdri stórfenglegri náttúru og iðandi mannlífi.

Það eru ýmsir þjónustuaðilar á Siglufirði og áhugasamir íbúar sem standa að hátíðinni. Verið er að leggja lokahönd á dagskrána og verður hún birt um næstu helgi.

Reikna má með að um 20 – 30 viðburðir verði þar og má m.a. nefna SiglóSöngva á Kaffi Rauðku, dansleiki með Ástarpungunum og Landabandinu, Bjórleika hjá Segli 67 auk listsýninga, smærri tónleika o.fl.

Börnin munu hafa nóg fyrir stafni því þau geta m.a. upplifað froðudiskó í boði Slökkviliðs Fjallabyggðar, notið tónleika á nokkrum stöðum, skoppað í hoppiköstulum og fleira skemmtilegt.

Íbúar eru hvattir til að skreyta í hverfislitunum líkt og undanfarin ár og stefnt er að götugrillveislum í hverfum bæjarins á fimmtudagskvöldi.

Minnkandi þátttaka hefur þó verið í þeim og erfitt hefur reynst að fá grillara til að taka að sér götur eða hverfi og er því verið að endurmeta stöðuna.

Þeir sem standa að hátíðinni vonast til að bæjarbúar taki virkan þátt og njóti þess sem í boði verður, sama á að sjálfsögðu við um þá gesti sem munu sækja Siglufjörð heim þessa helgi. Nánari fréttir munu koma inn á síðu Síldarævintýrisins á fésbókinni á næstu dögum.