Berjadagar tónlistarhátíð – www.berjadagar.is verður haldin 3.- 6. ágúst 2023 í Ólafsfirði, frá fimmtudegi til sunnudags.

Frumflutningur á Berjadögum:

-John Speight: Cantus III (2008) fyrir píanó og strengjasveit skrifað fyrir einleikarann, Tinnu Þorsteinsdóttur. Tinna leikur með Íslenskum strengjum undir stjórn Ólafar Sigursveinsdóttur. (Þriðja hátíðarkvöld laugardagur)

-Haukur Gröndal: ‘’Contentum’’ (2023) í flutningi Sverris Guðjónssonar og Frelsissveitar Íslands. Verkið erum klukkutími. Haukur hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir tónsmíð sína, ,Four elements’ sem var flutt á Djasshátíð 2020. (Annað hátíðarkvöld föstudagur)

-Anna Þorvaldsdóttir: Illumine (2016) fyrir strengjasveit en það verk hljómar í fyrsta skipti hér á landi í sinni fyrstu útgáfu, fyrir strengi. Frumflutningur fór fram í París 2017 og hefur einungis hljómað í útsetningu fyrir Sinfóníuhljómsveit hér á landi. (Þriðja hátíðarkvöld laugardagur)

Um Berjadaga

Berjadagar voru stofnaðir 1999 af Erni Magnússyni píanóleikara undir einkunnarorðunum ,,Náttúra og listsköpun.” Listrænn stjórnandi er Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari.

Berjadagar er fjölskylduvæn tónlistarhátíð sem fram fer um Verslunarmannahelgina. Frítt er inn fyrir 18 ára og yngri á alla viðburði hátíðarinnar. Í Ólafsfirði eru góðar aðstæður til tónleikahalds. Fjörðurinn sjálfur er fallegur og vænn til gönguferða og er gestum m.a. boðið í göngu með leiðsögn.

Berjadagar hátíðarpassi kr. 9500

Miði á stakt hátíðarkvöld: kr. 4500

Frítt fyrir 18 ára og yngri

Dagskrá Berjadaga: www.berjadagar.is

Berjadagar tónlistarhátíð 2023

Fyrsta hátíðarkvöld Berjadaga fimmtudaginn 3. ágúst í Ólafsfjarðarkirkju og eru í höndum Gunnars Kvaran sellóleikara og Guðnýjar Guðmundsdóttur fiðluleikara og áfram verður haldið á inn í kvöldið með ,,Sumarsælu í barokkstíl” þar sem leikið verður á barokkhörpu og leikin tónlist í gömlum stíl í flutningi ungra hljóðfæraleikara einsog Ástu Sigríðar Arnardóttur sópran sem er nýútskrifuð söngkona frá LHÍ. Hátíðarkvöld föstudagsins er í höndum Frelsissveitar Íslands í Tjarnarborg með Hauk Gröndal í broddi fylkingar og haldið beint í kammermúsíkkvöld þar sem sópransöngkonan Hrafnhildur Árnadóttir syngur lög eftir Fanny Hensel Mendelsson ásamt Einari Bjarti Egilssyni. Laugardaginn 5. ágúst verða frumflutt ný verk af strengjasveitinni Íslenskir strengir, þ. á m. Cantus III fyrir píanó og strengjasveit eftir John Speight undir stjórn Ólafar Sigursveinsdóttur. Hátíðinni lýkur með glæsilegu ,Lokakvöldi Berjadaga’ þarsem Kristjana Arngrímsdóttir vísnasöngkona vinnur hjörtu gesta ásamt Ave Sillaots á harmóniku. Nóttin yngist þegar á líður Lokakvöldið því ,brasilísk sveifla’ bíður ,handan við hornið’ með brasilískum listamönnum og Einari Bjarti Egilssyni píanóleikara. 

Auk þess sem hér er talið verða á viðburðaskrá hátíðarinnar flutt einleiksverk, óperuaríur, íslensk sönglög og þjóðlög.

Berjadagar njóta stuðnings frá Bæjarsjóði Fjallabyggðar, Uppbyggingarsjóði Norðurlands-eystri og Menningarsjóði FÍH. Eftirtalin fyrirtæki styrkja einnig hátíðina: Tónlistarsjóður Rannís, Arion Banki, Norðurorka hf, Árni Helgason ehf, Rammi ehf og Vélfag ehf.

Tónlistarmessa – Ólafsfjarðarkirkja

Sr. Stefanía Steinsdóttir þjónar fyrir altari. Milli messuliða munu hljóðfæraleikarar flytja tónlist.

Að lokinni messu verður efnt til samverustundar í Kvíabekkjarkirkju sem undanfarið hefur verið í endurbyggingu. Rifjuð verður upp saga kirkjunnar, sungið og flutt íslenska þjóðlagið Litlu börnin leika sér í nýrri útsetningu, en lagið ritaði séra Bjarni Þorsteinsson eftir séra Emil Guðmundssyni (f.1865 d. 1907) sem var prestur á Kvíabekk um aldamótin 1900 og birti það í Þjóðlagasafni sínu. Anna María Guðlaugsdóttir, formaður Hollvinafélags Kvíabekkjakirkju ávarpar samkunduna. 

ÖLL DAGSKRÁ – stutt og ýtarleg hér að neðan

DAGSKRÁ BERJADAGA 2023:

Fimmtudagskvöld 3. ágúst – Fyrsta hátíðarkvöld (tónleikatvenna 4500 kr.)

       kl. 20:00: Gunnar Kvaran og Guðný Guðmundsdóttir í kirkjunni  

       kl. 21:30: Sumarsæla í barokkstíl

Föstudagur 4. ágúst (frír aðgangur)

       kl. 13:00-17:00 Myndlistarsýning: “Alklæddur kofi og könnur”

       kl. 13:15-13:45: Sólveig Thoroddsen harpa og söngur 

       kl. 17:00-18:00: Tónlistin í lífi mínu – Helga Þórarinsdóttir og Gunnar Kvaran

Föstudagskvöld 4. ágúst – Annað hátíðarkvöld (tónleikatvenna 4500 kr.)

       kl. 20:00-21:00: Frelsissveit Íslands – Haukur Gröndal

       kl. 21:30: Fanny Mendelssohn og félagar

Laugardagur 5. ágúst (frír aðgangur)

       kl. 10:00-10:45: Söngur með börnum: “Foli, foli fótalipur”

       kl. 10:45-11:45: Gróðursetning með Önnu Maríu 

       kl. 14:00-17:00: Opnun myndlistarsýningar í Pálshúsi 

       kl. 15:30 – 16:00 Tónleikar á Hornbrekku!

Laugardagskvöld 5. ágúst – Þriðja hátíðarkvöld (4500 kr.)

       kl. 20:00: Íslenskir strengir og íslenskir einleikarar

Sunnudagur 6. ágúst (frír aðgangur)

       kl. 11:00-12:00: Messa í Ólafsfjarðarkirkju

       kl. 12:30-13:00: Samverustund í Kvíabekkjarkirkju

       kl. 13:00-17:00: Myndlistarsýning: “Alklæddur kofi og könnur”  

       kl. 13:15-13:45: Guito Thomas og Rodrigo Lopes – brasilísk tónlist              

       kl. 17:00-19:00 Göngutúr Berjadaga – Árdalur 

Sunnudagskvöld 6. ágúst – Lokakvöld Berjadaga (4500 kr.)

       kl. 20:00-21:30 Kristjana Arngríms og Brasilísk sveifla 

NÁNAR UM VIÐBURÐINA OKKAR

  • Fimmtudagskvöld 3. ágúst:

Hátíðarkvöld í tveimur hlutum  – Ólafsfjarðarkirkja

kl. 20:00-21:00 Gunnar og Guðný í kirkjunni

kl. 21:00-21:30 Hlé

kl. 21:30-22:30 Sumarsæla í barokkstíl

//

FYRRI HLUTI FYRSTA HÁTÍÐARKVÖLDS:

Gunnar og Guðný í kirkjunni kl. 20:00-21:00

Guðný Guðmundsdóttir fiðla

Gunnar Kvaran selló

Einar Bjartur Egilsson píanó

Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari leika einleik og tvíleik á fyrstu tónleikum hátíðarinnar í ár. Einar Bjartur Egilsson leikur á píanó og þríeykið galdrar fram sanna hátíðarstund fyrir gesti. Þau leika saman dúó eftir jafnólík tónskáld og Reinhold Gliere (1874-1956) og Antonio Vivaldi (1678-1741) en hjónin líta svo hvor í sína áttina: Guðný lítur til kventónskálda okkar, þeirra Karólínu Eiríksdóttur og Jórunnar Viðar. ,Eintal’ er stykki sem Karólína tileinkaði Guðnýju og hún leikur einnig hið þekkta sönglag, ,Vökuró’, eftir Jórunni. Gunnar Kvaran, sellóleikari, sækir hinsvegar í eldri músík og flytur úrval tónsmíða eftir Jóhann Sebastian Bach, Luigi Boccherini og dregur fram hina þekktu Vokalísu eftir Sergei Rachmaninov. Eftir tónleikana verður stutt hlé og hefst síðari hluti kvöldsins kl. 21:30 -Sumarsæla í barokkstíl. Góða skemmtun!

Hlé

SÍÐARI HLUTI FYRSTA HÁTÍÐARKVÖLDS:

Sumarsæla í barokkstíl kl. 21:30-22:30

Ásta Sigríður Arnardóttir sópran 

Sólveig Thoroddsen barokkharpa

Agnes Eyja Gunnarsdóttir fiðla

Ólöf Sigursveinsdóttir selló

Fyrsta hátíðarkvöld Berjadaga heldur áfram þar sem ungir listamenn  leika  tónlist fyrir barokkhörpu, fiðlu og söng. Þær Agnes, Sólveig og Ásta Sigríður  flétta saman glæsilega efnisskrá með frumbarokkstykkjum í bland við íslensk sönglög. Tónskáldin eru ekki af verri endanum t.d. Giovanni Maria Trabaci, Biagio Marini og Dario Castello. Sólveig Thoroddsen flytur einleik á barokkhörpu sem er sem er hljómfögur í sinni upprunalegu mynd og heyrist sjaldan leikið á slíkt hljóðfæri. Ásta Sigríður Arnardóttir sópran, nýútskrifuð söngkona úr Listaháskóla Íslands, syngur lög úr ranni Jórunnar Viðar ásamt Sólveigu. Agnes Eyja Gunnarsdóttir er nýkomin frá námi í Rotterdam í Hollandi og leikur á fiðlu sumarlegar sónötur eins og fyrstu Mystery-sónötuna eftir Heinrich Ignaz Franz Biber. Lýkur þar með fyrsta hátíðarkvöldi Berjadaga 2023 en fyrri helmingur er í höndum Guðnýjar Guðmundsdóttur fiðlu, Gunnars Kvaran selló og Einars Bjarts píanó kl. 20-21. Góða skemmtun á Berjadögum!

  • Föstudagur 4. ágúst: 

Annar hátíðardagur Berjadaga 2023 býður upp á listasýningu, tónleika og persónulegt spjall við tónlistarfólk.

AÐGANGUR ÓKEYPIS!

kl. 13:00-17:00 Myndlistarsýning: “Alklæddur kofi og könnur” 

kl. 13:15-13:45: Sólveig Thoroddsen, sólóharpa og söngur

kl. 17:00-18:00: Tónlistin í lífi mínu – Helga Þórarinsdóttir og Gunnar Kvaran

// 

Myndlistarsýning og tónleikar: 

“ALKLÆDDUR KOFI OG KÖNNUR” + SÓLVEIG THORODDSEN

Helga Pálína Brynjólfsdóttir textíllistakona 

Margrét Jónsdóttir leirlistakona 

HVENÆR: kl. 13:00-17:00

HVAR: Litla-Sveit í landi Þóroddsstaða*

Tónleikar kl. 13:15-13:45: Stuttu eftir að sýningin opnar heldur Sólveig Thoroddsen tónleika þar sem hún leikur á barokkhörpu og syngur.

ATH: Sýningin er einnig opin sunnudaginn 6. ágúst frá kl. 13-17 og þá verða einnig stuttir tónleikar kl. 13:15 þar sem Guito Thomas (gítar og söngur) og Rodrigo Lopes (slagverk) koma fram. 

UM SÝNINGUNA:

Myndlistarsýningin Alklæddur kofi og könnur er hluti Berjadaga 2023 og vísa könnurnar í nafni sýningarinnar til þjóðsögunnar um Sýrstein, sem stendur við veginn neðan Litlu-Sveitar. Þar segir frá ferðamanni sem sofnaði við steininn, þreyttur og þyrstur mjög. Þegar hann vaknaði stóð hjá honum drykkjarkanna full með ákjósanlegasta sýrudrykk, sem ferðamaðurinn gerði sér gott af, 

þó honum væri fullkomlega hulið hvaðan slíkur óskadrykkur gæti kominn verið. Nafnið fékk steinninn af þessu atviki.

*LEIÐARVÍSIR: 

Litla-Sveit er sumarbústaður, byggður 1935 og endurgerður 1987-2001. Eigendur eru listakonurnar og frænkurnar Helga Pálína Brynjólfsdóttir og Margrét Jónsdóttir, sem bjóða til sýningar á Berjadögum 2023, dagana 4. og 6. ágúst frá kl 13:00 til 17:00.

Píramídaþök kofans stingast eins og nornahattar upp úr umhverfinu þegar ekið er eftir vegi 802 milli Auðna og Þóroddsstaða, vestan megin í Ólafsfirði. Litla-Sveit er 5 km frá Ólafsfjarðarbæ, eystri byggðakjarna Fjallabyggðar, milli Auðna og Þóroddsstaða. Kvíabekkjarkirkja er nokkru sunnar sömu megin.

__ __ __

SÓVEIG THORODDSEN 

Fyrstu kynni hennar af þríraðahörpu voru í gegnum velska hörpuleikarann Robin Huw Bowen sem hún sótti nokkra tíma til. Þetta vakti áhuga hennar á eldri gerðum hörpunnar og til þess að fræða sig frekar í þeim efnum hóf Sólveig meistaranám í sögulega upplýstum flutningi á slíkar hörpur við Hochschule für Künste í Bremen í Þýskalandi. Þar var aðalkennari hennar Margit Schultheiß. Sólveig lauk námi þar í júlí 2016. Síðan hefur hún starfað sem hörpuleikari í nokkrum mismunandi löndum og komið fram á ýmsum hátíðum í Evrópu og Mið-Ameríku.

Allir velkomnir!

Aðgangseyrir: 0 kr.

//

Tónlistarspjall:

TÓNLISTIN Í LÍFI MÍNU – Hvað er hún?

HVENÆR: kl. 17:00-18:00

HVAR: Safnaðarheimili Ólafsfjarðarkirkju

Tónlistarmennirnir Gunnar Kvaran og Helga Þórarinsdóttir eiga það sameiginlegt að hafa tileinkað líf sitt tónlist. Þau eru bæði afkastamiklir tónlistarkennarar og hafa miðlað mörgu áfram sem nemendur nýta sér í starfi sínu sem tónlistarmenn. En það er varla til sá sellóleikari á Íslandi sem ekki hefur verið nemandi Gunnars! Helga starfar við hljómsveitarstjórn og kammermúsík í Tónskóla Sigursveins en hún varð fyrir sviplegu áfalli árið 2015 sem markar líf hennar fram á þennan dag og tónlistina… Gunnar og Helga spjalla við gesti í sitthvoru lagi um hvað tónlist er þeim. Einnig kynnir Gunnar bók sína, Tjáning, en hún fjallar um músík, tónskáldin og tilveruna. 

Kaffi á könnunni og allir velkomnir!

Allir velkomnir!

Aðgangseyrir: 0 kr.

  • Föstudagskvöld 4. ágúst:

Hátíðarkvöld í tveimur hlutum – Menningarhúsið Tjarnarborg

kl. 20:00-21:00 Frelsissveit Íslands

kl. 21:00-21:30 Hlé

kl. 21:30-22:30 Fanny Mendelssohn og félagar

//

FYRRI HLUTI ANNARS HÁTÍÐARKVÖLDS:

Frelsissveit Íslands kl. 20:00-21:00

Haukur Gröndal klarínett og tónskáld

Björg Brjánsdóttir flautur

Óskar Guðjónsson saxófónn

Birgir Steinn Theódórsson bassi

Matthias Hemstock slagverk

Sverrir Guðjónsson rödd

Frelsissveit Íslands var stofnuð árið 2010 af Hauki Gröndal. Hljómsveitin hefur starfað með hléum síðan þá og komið fram á ýmsum tónlistarhátíðum og gefið út nokkur hljóðrit.

Árið 2020 hlaut Frelsissveitin íslensku tónlistarverðlaunin og Haukur Gröndal verðlaun fyrir tónverk ársins fyrir verkið ,,Four elements” og frumflutning á því af Frelsissveitinni á Reykjavík Jazz Festival 2020. 

Á Berjadögum 2023 frumflytur Frelsissveitin verkið ‘’Contentum’’ eftir Hauk Gröndal.

Hlé

SÍÐARI HLUTI ANNARS HÁTÍÐARKVÖLDS:

Fanny Mendelssohn og félagar kl. 21:30-22:30

Ármann Helgason klarinett

Hrafnhildur Árnadóttir sópran

Daniel Absalon Ramirez Rodriguez klarinett

Ólöf Sigursveinsdóttir selló

Richard Scwennicke píanó

Einar Bjartur Egilsson píanó

Á þessum tónleikum er rauði þráðurinn ýðilfögur sönglög Fanny-Hensel Mendelssohn sem hljóma í flutningi Hrafnhildar Árnadóttur sópran og Einars Bjarts Egilssonar píanóleikara. Þess á milli vaxa tónsmíðar eins og ávextir á trjánum! Ekkert má falla á milli og verður að skína líkt og tímabilin í tónlistarsögunni. Listamenn eru ekki af verri endanum og hljóðfærin ólík. Einnig skiptast á skin og skúrir í stemningunni því tónlistin á sig sjálf. Fyrri helmingur kvöldsins kemur úr ranni Hauks Gröndal og Frelsissveitar Íslands. Húsið opnar kl. 19:15

//

  • Laugardagur 5. ágúst:

Þriðji hátíðardagur Berjadaga 2023 býður upp á fjölskyldusöng, gróðursetningu, myndlist og tónleika.

AÐGANGUR ÓKEYPIS!

kl. 10:00-10:45 – Söngur með börnum: ,,Foli, foli fótalipur”

kl. 10:45-11:45: Gróðursetning með Önnu Maríu

kl. 14:00-17:00: Opnun myndlistarsýningar í Pálshúsi

kl. 15:30 – 16:00 Tónleikar á Hornbrekku!

//

FOLI, FOLI FÓTALIPUR

Fjölskyldusöngstund á Berjadögum 

HVAR: Ólafsfjarðarkirkju

HVENÆR: kl.10:00-10:45

Komdu að syngja og dansa við skemmtilegar dýravísur! 

Fiðlu- og tónmenntakennarinn Diljá Sigursveinsdóttir leiðir tónlistarsamverustund fyrir alla í fjölskyldunni. Ungabörn, grunnskólabörn, unglingar, foreldrar og ekki síst afar og ömmur; allir hjartanlega velkomnir!

Farið verður beint í gróðursetningu fyrir þá sem vilja í framhaldinu. 

Aðgangseyrir: 0 kr.

//

GRÓÐURSETNING MEÐ ÖNNU MARÍU

formanni Skógræktarfélags Ólafsfjarðar: Kl. 10:45-11:45

HVAR: Hittast við Ólafsfjarðarkirkju beint eftir söngstundina

HVENÆR: kl.10:45-11:45

Ungir sem aldnir eru hvattir til að taka þátt í að gróðursetja. Trjárækt og samvera með plöntum! 

Það má skrá sig í síma s. 8612010 eða í s. 6152231.

Allir velkomnir!

Aðgangseyrir: 0 kr.

//

OPNUN MYNDLISTARSÝNINGAR Í PÁLSHÚSI:

Sean Patrick O’Brien myndlistarmaður sýnir verk sín kl. 14:00

“The Desire to Fly” er sýning í Pálshúsi sem fagnar íslenskri fuglaflóru og löngun mannsins til þess að upphefja sig til flugs. Með verkum sínum býður Sean fólki af öllum aldri að leggja af stað í eins konar flugferð þar sem ferðast er á milli heima töfra og uppgötvunar. 

Allir velkomnir!

Aðgangseyrir: 0 kr.

//

TÓNLEIKAR Í HORNBREKKU 15:30

Tónleikar og samvera:

Tónlistarmenn sem koma fram á Berjadögum smita vistmenn af gleðinni sem fylgir hátíðinni og leika tónlist af ýmsum toga. Allir velkomnir!

Allir velkomnir!

Aðgangseyrir: 0 kr. 

 

Lokakvöld með Kristjönu Arngríms verður í kirkjunni en Brasilíska sveiflan síðar um kvöldið kl. 21:30 í Tjarnarborg