Sótt um breytingu á verndaða afurðarheitinu „Íslenskt lambakjöt“

Þann 12. febrúar 2018 auglýsti Matvælastofnun að tekin hefði verið ákvörðun um skráningu afurðarheitisins „Íslenskt lambakjöt – Icelandic Lamb.“ Skráningin byggðist á íslenskum uppruna kjötsins, sbr. 4. gr. laga um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

Nú hefur borist umsókn frá sama aðila um breytingu einungis á afurðarheitinu og einungis á íslenska hluta þess.

Óskað er eftir að það verði framvegis skráð sem „Íslenskt lamb – Icelandic Lamb.“

Leitað hefur verið eftir lögbundnum umsögnum Samtaka atvinnulífsins og Hugverkastofu og gera þessir aðilar ekki athugasemdir við að afurðarheitinu verði breytt.

Samkv. 2. mgr. 15. gr. fyrrnefndra laga er heimilt að andmæla þessari ósk um breytingu á afurðarheiti áður en Matvælastofnun tekur ákvörðun um hvort skráningunni verður breytt til samræmis við fyrirliggjandi umsókn. Skal það gert innan tveggja mánaða frá birtingu þessarar auglýsingar eða fyrir 21. janúar 2020.

Andmæli er hægt að senda í netfangið mast@mast.is.

Ítarefni