Jón Trausti Traustason bóndi, vitavörður og veðurathugunarmaður á Sauðanesi við Siglufjörð sendir Veðurstofunni mánaðarlega tíðaryfirlit yfir veðráttu mánaðarins.

Yfirlit yfir veðrið í september 2019 frá veðurstöðinni á Sauðanesvita.

Veðurfar þessa September mánaðar var breytilegt og má segja að það hafi verið í takt við lægðagang við landið. Dagana mánaðarins skiptust á N.A. og S. lægar áttir nokkuð reglulega. Stóð vert tímabil fyrir sig frá einum til þrjá daga en skipti þá aftur. Vindhraði var að jafnaði ekki mikill heilt yfir ef undan eru skildir fáir dagar af og til er blés af N.A. áttum. Dagana þ. 19 og þ. 20. gerði talsverða rigningu samfara A. og A.N.A. áttum.

Meðalhiti mánaarins var + 7,75 stig og úrkoma mældist 137,6 mm.

Hæst komst hitinn í + 18,9 stig þ. 23. og lægst þ.15. er hiti fór niður í + 2,4 stig.

Í heild séð telst þessi September mánuður í góðu meðallagi hvað hitastig snertir og í rösku meðallagi hvað úrkomu varðar miðað við hin síðari ár. Alls voru 7 dagar í mánuðinum þar sem engrar úrkomu varð vart. Meðalúrkoma per alla daga mánaðarins var 4,6 mm. og 6,0 mm. var meðalúrkoma þeirra daga sem hennar varð vart.

Þegar úrkomutölur þessa mánaðar eru bornar saman við úrkomu í Ágúst mánaðar koma skemmtilega svipaðar niðurstöður fram. Þ. 15. gránaði í fjöll hér en hafði tekið upp aftur þ. 17.

Mynd: Halldór Gunnar Hálfdansson