Föstudaginn 30. júlí fór fréttaritari að finna megna brunalykt við Laugarveginn á Siglufirði og fór út á götu til að athuga hvort það væri kviknað í einhvers staðar í nágrenninu. Þar sem varla sást á milli húsa vegna þoku var hringt í 112 til að tilkynna mögulegan eld í grennd.

Skýringin á þessari megnu brunalikt var að töluverður eldur kom upp í sorpgámi á gámasvæðinu við Ránargötu á Siglufirði laust eftir klukkan 10 á föstudagsmorgun.

Töluverðan tíma tók að slökkva eldinn en í gámnum var mikið timbur og annað brennanlegt efni.

Engin hætta var á útbreiðslu en töluverðan reyk lagði um tíma yfir Siglufjörð.

Slökkvistarf tók á þriðju klukkustund en til þess að slökkva í glæðum var fengin grafa til þess dreifa úr innihaldi gámsins.

Lögreglan á Norðurlandi eystra rannsakar eldsupptök.

Myndir/Slökkvilið Fjallabyggðar