Brúnastaðir

Geitaburður er í fullum gangi á Brúnastöðum í Fljótum. Trölli.is hafði samband við Stefaníu Hjördísi Leifsdóttur bónda á Brúnastöðum og spurði hana út í gang mála.

Sagði hún meðal annars “það eru rúmlega 60 geitur sem bera, við munum fá rúmlega 100 kiðlinga. Það verða sem sagt um 60 huðnur mjólkaðar í sumar, planið er að fjölga þeim um helming til mjólkurframleiðslu.

Við gerðum 4 tegundir af geitaostum síðastliðið haust í nýju matarsmiðjunni okkar. Þeir mældust sérstaklega vel fyrir og mikil eftirspurn var eftir þeim þannig að þetta er spennandi verkefni.

Munum fara í frekari vöruþróun í sumar, bæði á geita- og sauðaostum. Spenntust erum við að gera sauðaskyr sem var á borðum landsmanna í hundruð ára en fæstir hafa smakkað sem lifa í dag. Það þykir afar ljúfengt af þeim sem hafa prófað.

Við erum líka spennt fyrir að opna litla búð í tengslum við dýragarðinn okkar þar sem við getum selt vörur sem við framleiðum beint frá býli, bæði kjötvörur, egg og svo ostana. Kannski verður líka hægt að fá sér kaffisopa og heimabakað og kíkja á geiturnar og fleiri dýr í leiðinni”.

Trölli.is óskar þeim velfarnaðar í þessum metnaðarfullu áformum og verður gaman fyrir bæði börn og fullorðna að koma við hjá Brúnastaðabændum.

Skemmtilegar myndir af nýbornum kiðlingum á Brúnastöðum.

Myndir/ aðsendar