Er lyfjanotkun of mikil meðal eldri Íslendinga? er spurt á vefsíðunni Lifðu núna.

“Það er ekkert einfalt svar til við þessari spurning,” segir Helga Eyjólfsdóttir öldrunarlæknir. “Tíðni fjölveikinda eykst með hækkandi aldri og sömuleiðis notkun lyfja og því er oftast um að ræða eðlilega aukningu á lyfjanotkun. Fjöllyfjanotkun (e. polypharmacy) er skilgreind sem regluleg notkun fimm eða fleiri lyfja. Fjöllyfjanotkun eykur hættu á aukaverkunum lyfja og lyfjatengdum veikindum og sjúkrahúsinnlögnum. Með auknum fjölda lyfja eykst hættan á að lyfin fari að hafa áhrif á hvort annað og ýmist minnka eða auka áhrif hvors annars.”

Helga segir að með hækkandi aldri breytist einnig líkamssamsetningin og fituprósenta líkamans aukist. Við þetta geti hættan á að fituleysanleg lyf, eins og t.d. mörg geðlyf eru, safnist fyrir í fituvef og skiljist því verr út úr líkamanum en áður. “Einnig skerðist nýrnastarfsemin og að vissu marki lifrarstarfsemin og því mikilvægt að taka tillit til þessara þátta þegar lyf og skammtastærðir eru ákvarðaðir,” segir Helga og bætir við að mikilvægt sé að gerð sé regluleg lyfjayfirferð en það er endurskoðun á öllum virkum lyfjum einstaklingsins og tekin virk afstaða til þess hvort lyf eigi enn við, hvort milliverkanir séu til staðar milli mismunandi lyfja og hvort skammtastærðir séu viðeigandi. Eins er til í dæminu að lyfjameðferð sem var viðeigandi á ákveðnu tímabili sé það ekki lengur. Hún ráðleggur að það sé gert árlega til að lyfin virki sem best og til að minnka hættu á aukaverkunum.

Mikil notkun geðlyfja

Á Íslandi hefur borið á áhyggjum almennings vegna mikillar notkunar geðlyfja landans en það eru þunglyndis-, kvíða- og svefnlyf. Helga segir að það sé rétt að hér virðist hlutfall þeirra sem eru á slíkum lyfjum vera hærra en í löndunum í kringum okkur. “Mögulega erum við duglegri að greina geðsjúkdóma eða geðræn einkenni og þar með meðhöndla með lyfjum, en sá möguleiki er einnig til staðar að Íslendingum sé hættara við geðrænum einkennum svo sem þunglyndi, kvíða eða svefntruflunum. Þetta er ekki alveg ljóst en mikilvægt er að lyf og lyfjaskammtar séu endurskoðaðir reglulega.

Skilgreiningin á öldrun

“Aldur er ekki breyta í sjálfu sér,” segir Helga. “Við notum frekar fjölveikindi og hrumleika til að skilgreina hugtakið öldrun. Áttræður einstaklingur getur verið mjög hrumur á meðan jafnaldri hans getur haft mjög góða heilsu og færni.

Nokkrir áhættuþættir eru vel skilgreindir varðandi algenga sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma. Þeir eru t.d. reykingar, sykursýki og blóðfituröskun. Ættarsaga skiptir þar líka máli. Ofneysla á áfengi hefur mjög neikvæð áhrif á heilsu og magnast þau áhrif upp með hækkandi aldri. Hreyfingarleysi og ofþyngd hafa einnig neikvæð áhrif á heilsu, bæði hvað varðar áhættu á ýmsum sjúkdómum en einnig andlega líðan. Með hækkandi aldri og aukinni sjúkdómabyrði getur lélegt næringarástand og einhæft mataræði einnig haft mjög neikvæð áhrif á heilsuna.

Það er samt því miður engin örugg ávísun á hreysti að hafa lifað heilsusamlegu lífi þótt líkurnar aukist sannarlega. Lífið verður þó ánægjulegra og okkur líður betur ef við gætum að reglulegri hreyfingu og hollu mataræði.

Arfgengi er mikilvægur áhættuþáttur ýmissa algengra sjúkdóma og við fæðumst með gen sem hafa áhrif bæði á líkur á sjúkdómum og langlífi. Sem dæmi má nefna, að árið 2012 var lýsti Íslensk erfðagreining stökkbreytingu sem hefur verndandi áhrif gegn Alzheimer sjúkdómi og þessi uppgötvun hefur veitt innblástur að þróun lyfs sem líkir eftir stökkbreytingunni. Lyfjaþróun gegn Alzheimer sjúkdómnum er í fullum gangi, þó hún fari hægar en við kysum,” segir Helga.

Við á Lifðu núna munum fylgjast vel með þróun þessara alzheimerrannsókna og upplýsa lesendur reglulega.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Forsíðumynd/pixabay