Nú hafa elstu verk í eigu Listaverkasafns Fjallabyggðar verið skráð og birt á vefsíðu safnsins. Myndirnar eru eftir Emil Thoroddsen og málaðar á árunum 1917-1920.
Emil Thoroddsen var tónskáld og af mörgum talinn einn fjölhæfasti Íslendingur af kynslóð þeirri, sem kennd er við aldamótin. Hann var jafnvígur á flestar greinar lista. Tónlist, málaralist, skáldskap. Hann er þekktastur sem tónskáld en einnig sem píanóleikari, leikskáld, gagnrýnandi og þýðandi. Þegar myndlistariðju hans er bætt við má sannarlega tala um afar hæfan listamann.
Myndirnar keypti Siglufjarðarkaupstaður af Sigrúnu Jónsdóttur þann 16. júlí 1997. Engin myndanna er „signeruð“. Þær eru allar frá Siglufirði og hafa verið sýndar almenningi fyrir mörgum árum, m.a. á sýningu á myndum eftir Emil sem haldin var í Listvinasalnum í febrúar 1953.
Þekktar eru nokkrar myndir Emils frá Siglufirði, þar á meðal Siglufjarðarvalsinn frá 1922.
Emil lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík árið 1917 og fór eftir það í Kaupmannahafnarháskóla þar sem hann lagði stund á listasögu og málaralist. Hann varð cand. phil. árið 1918. Emil hafði lært myndlist hjá Ásgrími Jónssyni sem unglingur og margir töldu að hann myndi fara í myndlistarnám, en frá 1921 til 1925 var hann í tónlistarnámi í Leipzig og Dresden.
Eftir dvalir sínar erlendis sneri hann heim og gerðist hljómsveitarstjóri við Leikfélag Reykjavíkur. Hann þýddi þó nokkuð af leikverkum fyrir leikfélagið auk þess sem hann starfaði sem myndlistargagnrýnandi og tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins frá 1926 til 1933. Enn fremur var Emil einn af stofnendum Tónlistarfélags Reykjavíkur.
Listaverkasafn Fjallabyggðar birtir með stolti þessar níu perlur eftir fjöllistamanninn á heimasíðu safnsins: https://listaverk.fjallabyggd.is