Öllum börnum sem fæðast með skarð í efri tannboga eða með klofinn góm er tryggður réttur til endurgreiðslu vegna tannlækninga og tannréttinga sem nemur 95% af gjaldskrá tannlæknis, að undangengnu mati á þörf, samkvæmt reglugerð sem tók gildi 1. janúar síðastliðinn.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í desember síðastliðnum ýmsar aðgerðir sem miða að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga. Líkt og fram kom er á næstu tveimur árum áætlað að auka framlög til tannlæknisþjónustu við börn og lífeyrisþega um samtals 320 milljónir króna. Fyrsta skrefið var stigið 1. janúar með gildistöku reglugerðar sem kveður á um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga vegna þess vanda sem hér um ræðir.

Eins og fram kemur í reglugerðinni nær greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nú til kostnaðar vegna nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga vegna „skarðs í efri tannboga eða klofins góms, harða eða mjúka, þegar fram hefur farið mat á vanda umsækjanda hjá tannlæknadeild Háskóla Íslands og meðferð talin nauðsynleg og tíma­bær.“

Af: stjornarradid.is