Á 241. fundi Skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar var lögð fram áætlun Helga Jóhannssonar nefndarmanns um aðgerðir til að hefta útbreiðslu lúpínu í Fjallabyggð.
Nefndin samþykkir að vísa tillögum til úrvinnslu hjá tæknideild og þjónustumiðstöð Fjallabyggðar.

Aðgerðir til að hefta útbreiðslu Lúpínu í Fjallabyggð.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að Lúpínu verður ekki útrýmt í Fjallabyggð. Aðgerðir gagnvart henni ganga eingöngu út á að hefta útbreiðslu hennar á þegar gróin svæði.

Aðgerðirnar felast í því að slá jaðra á stórum svæðum t.d. 3 metra inn í breiðuna (s.s. sunnan við skíðalyftuna í Tindaöxl ) og svo að heilslá ný og nýleg svæði. Einnig er vert að skoða frekari gróðursetningu trjágróðurs inn í Lúpínuflákum. (Skógræktarfélag Ólafsfjarðar ? )

Ólafsfjörður:

1.svæði – sunnan Brimnesár.
Svæðið norðan Brimnesár er óviðráðanlegt sökum stærðar. Hins vegar þarf að huga að aðgerðum sunnan árinnar. Töluvert er af Lúpínu ofan við og við veginn upp í gömlu grjótnámuna og erfitt að eiga við hana þar, það eru áratugir síðan hún kom á þetta svæði. En skoða þarf möguleika á frekari útbreiðslu í átt að byggðinni.

2.svæði – sunnan skíðalyftu.
Þarna þarf að setja niður fótinn og varna því að hún dreifi sér suður eftir fjallinu. Slá inn í breiðuna og heilslá ný svæði.

3.svæði – snjóflóðavarnargarðurinn

Lúpínan hefur nýlega náð fótfestu í garðinum og ef ekkert verður að gert þá mun hún halda áfram að dreifa sér yfir vel gróið svæði sunnan garðsins. Þarna þarf að slá hana 100% niður og passa uppá frekari útbreiðslu suður fyrir Hornbrekku. Passa vel annan gróður sem er í garðinum s.s. trjáplöntur sem er að finna víða.

4.svæði – vestan brúar

Lúpína hefur verið til fjölda ára á mjög afmörkuðu svæði við sumarbústað neðan við Laugarengi. (borholurnar) Nú hefur hún hins vegar dreift sér á suðurenda gamla flugvallarins og vestan og sunnan við brúna yfir ósinn. Þarna þarf að slá hana 100% og einnig ef um fleiri staði er að ræða sem gætu verið að birtast í byrjun sumars.

Siglufjörður:

1.svæði – jarðgangnamunni til Skútuá (ræsi )
Sitthvoru megin við þjóðveginn er Lúpínan að ná sér vel á strik. Mikilvægt er að stöðva framgöngu hennar og legg ég til að hún verði slegin 100% frá ræsinu í gegnum þjóðveginn og upp að gangnamunnanum. Það er aðallega nær ræsinu þar sem hún er orðin þétt en flákar eru að myndast nær munnanum. Svo er spurning hvað fólki finnst, á að verja kirkjugarðinn fyrir áganginum, mér finnst það. Og hvað með önnur svæði?

Ég legg til að nú þegar og þá meina ég á næstu dögum, verði eftirfarandi í forgangi:

Slá alla Lúpínu í snjóflóðagarðinum ofan Hornbrekku
Slá hana alla vestan við brú og á gamla flugvelli.
Slá hana alla milli gangnamunna og ræsis undir þjóðveginn á Siglufirði.

Þetta plagg er auðvitað ekki fullunnið og tillögur óskast ef fólk er með. En ég legg áherslu á að slá þessi þrjú svæði núna. Og í framhaldinu verði farið í að slá inn í jaðra stærri fláka. En svo verður líka að sýna skynsemi í þessu verkefni, skjalið nær ekki yfir öll svæði þar sem Lúpínu er að finna ef við sjáum þau þá þarf að bregðast við. Við vinnum ekki þetta stríð en við getum unnið orustur.

Ólafsfirði, júní 2019

Helgi Jóhannsson
nefndarmaður í Skipulags- og umhverfisnefnd.

 

.

 

.