Rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á mannsláti á Ólafsfirði þann 3. október sl. miðar vel og er skýrslutökum að mestu lokið.

Úrvinnsla gagna stendur enn yfir og er meðal annars beðið endanlegrar niðurstöðu réttarkrufningar sem og niðurstaðna samanburðarrannsókna á lífsýnum. Þá fór fram í dag sviðsetning atburðarins með liðsinni sakbornings og aðstoðar tæknideildar lögreglu.

Sviðsetning er rannsóknarúrræði sem er almennt ætlað að varpa betur ljósi á þau atvik sem til rannsóknar eru og er viðbót sem getur gefið sakborningi betra færi á að lýsa atburðum. Sviðsetning er svo borin saman við önnur rannsóknargögn svo sem vettvangsrannsókn, lífsýni og framburði annarra.

Eins og fram hefur komið í fréttum, krafðist Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra ekki áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir sakborningi vegna rannsóknarinnar. Ákvörðunin byggir á þeim forsendum héraðsdóms og síðar Landsréttar að lögregla hefði ekki sýnt nægilega fram á að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 væru fyrir hendi.

Karlmaðurinn mun áfram ásamt þremur öðrum bera réttarstöðu sakbornings í málinu á meðan rannsókn stendur yfir.

Að rannsókn lokinni verður málið svo sent til ákærumeðferðar hjá Héraðssaksóknara.