RUV.is greindi frá bæjarstjóramálum Fjallabyggðar í gær undir fyrirsögninni Sveitarstjóralaust í Fjallabyggð, þar var farið yfir málin og rætt við Guðjón M. Ólafsson.

Í desember 2024 sagði meirihlutinn í Fjallabyggð Sigríði Ingvarsdóttur þáverandi bæjarstjóra upp störfum og hætti hún með skömmum fyrirvara þann 15. desember. Hvergi hefur komið fram málefnaleg skýring á þessum starfslokum.

Sigríður hafði verið ráðin til starfa eftir sveitastjórakosningar árið 2022, með ráðningarsamning til ársins 2026. Sigríður var valinn úr hópi 14 umsækjanda.

Í kjölfarið var tilkynnt að Þórir Hákonarson sem ráðinn hafði verið inn skömmu áður sem skrifstofustjóri yrði settur bæjarstjóri Fjallabyggðar til 1. apríl 2025 eða þar til nýr bæjarstjóri yrði formlega ráðinn.

Takmörkuð upplýsingagjöf hefur verið um forsendur starfsloka Sigríðar, en umræðu um málið var m.a. að finna í útvarpsþættinum Þetta helst á RÚV í lok febrúar.

Í apríl var upplýst að Þórir Hákonarson hefði á ný verið ráðinn í stöðu skrifstofustjóra eftir að staðan hafði verið auglýst laus til umsóknar. Staða bæjarstjóra hefur ekki verið auglýst opinberlega.

Í skriflegu svari til RÚV frá formanni bæjarráðs, Guðjóni M. Ólafssyni, kemur fram að ekki standi til að auglýsa stöðuna að svo stöddu. Samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins gegnir skrifstofustjóri hlutverki bæjarstjóra tímabundið, þar til önnur ákvörðun verður tekin.

Segja má að Þórir Hákonarson hafi verið ráðinn inn sem skrifstofustjóri Fjallabyggðar skömmu áður en Sigríði var sagt upp störfum, síðan settur bæjarstjóri eftir uppsögnina í þrjá og hálfan mánuð og ráðinn aftur inn sem skrifstofustjóri Fjallabyggðar.

Í meirihluta Fjallabyggðar eru þau:

  • A-listi Jafnaðarfólk og óháðir:
    • Guðjón M. Ólafsson
    • Sæbjörg Ágústsdóttir
    • Arnar Stefánsson
  • D-listi Sjálfstæðisflokkurinn:
    • Sigríður Guðrún Hauksdóttir
    • Tómas Atli Einarsson

Forseti bæjarstjórnar er Sigríður Guðrún Hauksdóttir og formaður bæjarráðs er Guðjón M. Ólafsson .