Tónlistarhátíðin Hátíðni verður haldin á Borðeyri við Hrútafjörð fyrstu helgina í júlí. Þar koma fram tónlistarmenn og hljómsveitir sem hafa verið að hasla sér völl á íslensku tónlistarsenunni að undanförnu. Það er listasamlagið og útgáfufélagið Post-dreifing sem stendur að viðburðinum.

Hátíðin var haldin í fyrsta sinn opinberlega í félagsheimilinu Brún í Borgarfirði í fyrra en tónleikarnir í sumar fara fram í gamla grunnskólanum á Borðeyri sem nú gegnir hlutverki félagsheimilis. Á meðal þeirra hljómsveita sem fram koma á hátíðinni má nefna The Beeves, Bagdad Brothers, Skoffín, Gyðjan Uxi, Captain Syrup, Nornagal og Spaðabana. ,,Mestmegnis er þetta fólk sem er í okkar hringjum og er að gera spennandi hluti, við erum búin að vera að reyna að leggja áherslu á að fá inn nýtt fólk sem hefur ekki verið að spila mikið áður,” segir Bjarni Daníel Þorvaldsson, einn af forsprökkum Post-dreifingar og meðlimur í hljómsveitinni Bagdad Brothers, hann segir raunar að færri hafi komist að en vildu. Bjarni segir að gróskan í íslensku tónlistarlífi sé mjög mikil þessi misserin. ,,Það er búið að vera ótrúlega merkilegt að fylgjast með öllum þessum böndum í kringum mann þroskast og dafna, vekja athygli og hrista upp í tónlistarlífinu.” Bjarni nefnir til dæmis í þessu samhengi hljómsveitina Gróu sem hann segir hafa vaxið mikið að undanförnu. ,,Ég man þegar ég sá þær spila fyrst á Airwaves 2017, á Bar Ananas, off-venue gig, þær voru fimmtán og sextán ára þá og báru það alveg með sér, en samt alveg ótrúlega flott stöff sem þær voru að spila strax þá, þær hafa þroskast mikið síðan, og tónlistin er orðin eitthvað annað hjá þeim.”

Bjarni Daníel segir að hljómsveitirnar sem kom fram koma á Hátíðni í sumar séu af margvíslegum toga, fjölbreytt tónlist muni hljóma á Borðeyri í júlí, hipp hopp, indie-rokk, og pönk, svo nokkuð sé nefnt. ,,Ég held að hljómsveitirnar sem koma fram hjá okkur í sumar eigi það sameiginlegt umfram annað að deila þessari ,,gerum það saman” hugmyndafræði sem er okkar spin á ,,gerðu það sjálfur,” eða DIY.” Bjarni er eins og áður segir meðlimur í hljómsveitinni Bagdad Brothers sem hefur vakið töluverða athygli á undanförnum misserum. Síðar í þessum mánuði heldur hljómsveitin vestur um haf en framundan er tónleikaferð um Kanada og Bandaríkin þar sem hljómsveitin mun halda tuttugu og fimm tónleika á einum mánuði.