Frá því í haust hafa íslensk skólabörn fengið gefins sýnileikavesti frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg en í upphafi skólaárs var ráðist í það að útvega öllum leik- og grunnskólum á landinu um níu þúsund ný vesti til að auka öryggi barnanna í skammdeginu.

Landsbjörg sér um verkefnið en RARIK er á meðal fjölda fyrirtækja sem leggja hönd á plóg og greiða fyrir sýnileikavestin. Nauðsynlegt er að leggja til ný vesti á nokkurra ára fresti því skólabörnum fjölgar, vestin tapast eða skemmast og ekki má gefa afslátt af örygginu.

RARIK er með starfsemi víðsvegar um land og er í miklu samstarfi við björgunarsveitir og fær að auki gjarnan skólabörn í heimsókn í vettvangsferðum þegar þau koma til að fræðast um starfsemi RARIK og mikilvægi rafmagnsins í lífi okkar allra.

„Það er mjög ánægjulegt að geta stutt við björgunarsveitirnar og nærsamfélagið með þessum hætti og við vonum að það sé börnunum hvatning til að vera vel sýnileg, eins og starfsfólk okkar, en margt þeirra klæðist sýnileikafatnaði við vinnu sína. Vonandi koma vestin að góðum notum í skammdeginu í vetur og á næstu árum,“ segir Rósant Guðmundsson, kynningarstjóri RARIK.

Mynd/af vefsíðu RARIK