Er umhverfisslys í uppsiglingu í Siglufirði í boði bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna? 

Undirritaður var staddur í Reykjavík um hátíðar og átti þess vegna kost á að skoða  mikið umhverfisslys í Mjóddinni í boði vinstri manna í borgarstjórn.

Þar er risin skemma sem er eins og skrímsli í íbúðar- og íþróttamannvirkja byggð. Lesendur hafa eflaust séð þetta í fréttum. 

Hvað er að ske hjá okkur í Siglufirði! 

Hjá Umhverfis- og skipulagsnefnd liggur fyrir beiðni um að reisa verslunarmiðstöð í nafni Samkaupa, sem m.a. rekur Kjörbúðina hér í Siglufirði, á dýrmætustu lóð bæjarins, í gömlum sveitarbæjar stíl. Á kynningarfundi, sem haldinn var í ráðhúsinu í boði bæjarstjórnar, þar sem hönnuðir lýstu þeirri uppljómun sem þeir urðu fyrir þegar þeir sáu háu og bröttu þökin á húsum Síldarminjasafnsins. 

En fellur þessi tillaga að næsta umhverfi miðbæjarins. Ef þú ágæti lesandi stendur t.d. á torginu og horfir í suður, í átt að því svæði sem þessi bygging er fyrirhuguð, og  ímyndar þér að byggingin væri risin, hvað sérð þú í þeirri mynd að þessi fyrirhuguð bygging eigi sameiginlegt með næsta umhverfi annað en loka á fallegu endurbyggðu verbúðirnar/veitingahúsin. Í sjónlínu er einnig eitt glæsilegasta hótel landsins Sigló-hótel.  

Það hefði átt að vera lágmarkskrafa umhverfis- og skipulagssviðs, f.h. okkar bæjarbúa áður en fyrrnefndur fundur var haldinn, að hönnuðir skiluðu inn líkani þar sem íbúar gætu áttað sig á hvernig fyrirhuguð bygging fellur að næsta umhverfi t.d. aðkomu að veitingahúsum og þá upplifun gesta sem verður þegar horft er úr veitingasal í vestur á bárujárnsklæddan vegg. Það er ekki nema lítill hluti íbúa sem gerir sér grein fyrir því hvernig þessi fyrirhuguð bygging fellur að umhverfinu og hve mikið byggingamagn þarna er fyrirhugað. 

Þegar húsnæði  sem Egilssíld var starfrækt í við Gránugötu var rifið,  opnaðist nýr miðbær og ný uppgerðar verbúðir/veitingahús fengu að njóta sýn. 

Við Siglfirðingar, íbúar Fjallabyggðar, eigum sannarlega þá von í brjósti að hér rísi verslun með gott aðgengi og þá eru til staðir innan sveitarfélagsins sem geta vel þjónað þeim tilgangi en þessi staðsetning fyrir vestan Torgið (Hannes boy) og Bláahúsið er ekki staður fyrir verslunarmiðstöð eða nokkurn annan rekstur. Stöndum vörð um þann einstaka miðbæ sem við eigum. 

Ég vil að lokum vona að fulltrúar sjálfstæðismanna í Fjallabyggð setji ekki nafn sitt við það mikla umhverfisslys sem verður ef þessar byggingaframkvæmdir verða leyfðar og hvernig datt bæjarfulltrúum í hug, á sínum tíma, að ljá máls á því að svona bygging gæti risið á þessum stað. 

Með nýárskveðju 

Konráð Karl Baldvinsson