Hér er boðið upp á glænýtt myndband með syrpu af eldri lögunum á disknum “Pikkað upp úr poppfarinu” sem björgunarsveitin Strákar á Siglufirði er að selja þessa dagana. Það var tekið upp á ýmsum stöðum á Siglufirði fyrir fáeinum vikum síðan og hefur Birgir Jóhann Birgisson sem var einnig kvikmyndatökumaður, nýlokið við að klippa það.
Ég er táningur. (1983) – Lag & texti: Leó R. Ólason.
Kom fyrst út á smáskífunni “Stubbi og Stuðkarlarnir”, en sú hjómsveit starfaði aðeins um sumarið sama ár. Hana skipuðu Kristbjörn Bjarnason söngur, Ingi Lárus Guðmundsson gítar, Viðar Bergþór Jóhannsson bassi og sá sem þetta ritar á hljómborð. Sennilega var þetta líka fyrsta siglfirska hljómsveitin sem notaðist við trommuheila.
Með kveðju til þín. (1983) – Lag & texti: Leó R. Ólason.
Kom fyrst út á smáskífunni “Stubbi og Stuðkarlarnir” en síðar á “Svona var á Sigló” 1999 með breyttum texta sem féll þó ekki í kramið hjá öllum.
Eftir ballið. (1978) – Lag: Leó R. Ólason, texti: Hafliði Guðmundsson.
Kom fyrst út á smáskífunni “Miðaldamenn” 1981 eftir að hafa komist í 10 laga úrtak í Söngakeppni sjónvarpsins veturinn á áður. Þegar árið var svo tekið saman á RUV reyndist það hafa verið í 15. sæti yfir mest spiluðu íslensku lögin það ár. Síðar kom það út á geisladisknum “Gæðamolar” og þar var það sungið af Þuríði Sigurðardóttur, en loks á “Svona var á sigló 2” sungið af Rut Reginalds.
Plötusnúðurinn. (1981) – Lag & texti: Leó R. Ólason.
Var samið í einum grænum því það vantaði lag á bakhlið Miðaldamannaplötunnar. Hefði líklega heitið Mr. DJ. ef það hefði verið sett saman í dag.
Minning um síldarævintýri (1983) – Lag: Leó R. Ólason, texti: Snorri Jónsson.
Var upphaflega hugsað sem eitt þeirra laga sem komu til greina á smáskífuna “Stubbi og Stuðkarlarnir”. Því var þá snarlega hafnað af söngvaranum, en þá hét það “Steini vinur minn”. Síðar var gerður annar texti við lagið og til stóð að taka það upp fyrir CD, en ekkert varð af því og þá hét það “Æskan”. Þegar undirbúningur var hafinn fyrir útgáfuna “Svona var á Sigló”, gerði ég texta við það um Síldarævintýrið, en var ekki sáttur við útkomuna. Ég hafði þá samband við Siglfirðinginn Snorra Jónsson sem er búsettur í Vestmannaeyjum og sagði honum frá hugmyndinni. Hann endursagði og endurskapaði textann og útkoman varð með miklum ágætum.