Í síðustu viku var var hópur nemenda og kennara frá Grikklandi, Lettlandi og Tékklandi í heimsókn í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Hópurinn telur 21 nemanda og sex kennara en níu nemendur og tveir kennarar MTR taka á móti þeim. Þetta er Erasmus verkefni sem nefnist „U2 have a voice” eða „Þú hefur líka rödd“ en markmið þess er fræðsla um mannréttindi og ábyrg þátttaka í lýðræðisþjóðfélagi.

Verkefnið hófst á kynningum og í kjölfarið var m.a. fræðsla um réttindi og stöðu kynsegin fólks og einnig var vinnustofa þar sem unnið var með listaverk sem fjalla um mannréttindi.

Svo var útivistardagur á Siglufirði. Byrjað var á ratleik um bæinn og eftir það renndu krakkarnir sér á belgjum í skógræktinni. Síðan fór hópurinn til Akureyrar þar sem bæjarstjórinn tók á móti þeim og í kjölfarið hittu þau jafnréttisfulltrúa bæjarins. Þá fór hópurinn á Listasafnið og á skauta í Skautahöllinni og enduðu daginn í MA þar sem þau hittu Ungmennaráð Akureyrar og fræddust um þátttöku ungmenna í nefndum og ráðum bæjarins.

Heimsókninni lauk föstudaginn 1. apríl og eftir að hafa heilsað upp á forsetann á Bessastöðum flaug hver til síns heima. Næsta ferð er svo í byrjun maí þegar nemendur og starfsfólk við MTR heldur til Tékklands til fundar við hópinn á ný.

Ljósmynd: ΣΤΑΥΡΟΥΛΑ ΧΡΙΣΤΙΝΑ ΙΒΚΟΒΙΤΣ