Að jafnaði störfuðu 190.141 einstaklingar á aldrinum 16–74 ára á íslenskum vinnumarkaði í janúar og febrúar 2020 sem var 1,4% samdráttur í fjölda starfandi miðað við sama tímabil 2019 segir á vefsíðu Hagstofu Íslands. Til samanburðar hafði fjölgað í þessum sama hópi um 0,7% í janúar og febrúar 2019 frá árinu áður. Af þeim sem voru starfandi í janúar og febrúar 2020 voru 90.374 (47,5%) konur og 99.766 (52,5%) karlar. Þetta er meðal niðurstaðna í uppfærðum tölum um vinnuafl byggt á skráargögnum.
Flestir á aldrinum 16–74 ára, sem störfuðu á íslenskum vinnumarkaði í janúar og febrúar 2020, voru með íslenskan bakgrunn, eða 154.287 (81,1%) en 35.854 (18,9%) teljast til innflytjenda. Til samanburðar voru 80,1% með íslenskan bakgrunn og 19,9% með erlendan bakgrunn að jafnaði árið 2019.
Meðfylgjandi kort sýna dreifingu einstaklinga með erlendan bakgrunn á vinnumarkaði og dreifingu einstaklinga í einkennandi greinum ferðaþjónustu. Árið 2019 var hlutfall einstaklinga með erlendan bakgrunn á vinnumarkaði hæst í Breiðholti, Miðborg Reykjavíkur og Reykjanesi.
Árið 2019 var hlutfall einstaklinga sem störfuðu í einkennandi greinum ferðaþjónustu hæst í Miðborg Reykjavíkur og á Suðausturlandi, en lægst á Norðvesturlandi, Vestfjörðum og í Múlasýslunum gömlu.
Um gögnin
Vinnuafl úr skrám (VS) eru talningar á einstaklingum úr mánaðarlegum staðgreiðslu- og mannfjöldagögnum. Staðgreiðslugögn byggja á upplýsingum frá ríkisskattstjóra um uppgjör vegna staðgreiðslu af launum og/eða reiknuðu endurgjaldi, samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Uppgjörið hefur verið auðgað með öðrum upplýsingum svo hægt sé að nýta það til hagskýrslugerðar, til að mynda til að geta aðgreint staðgreiðsluskyldar launagreiðslur frá öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum.
Þar sem markmiðið er að telja þá sem sannarlega eru starfandi (frekar en alla sem fengu staðgreiðsluskyldar greiðslur), eru þeir skilgreindir sem starfandi sem höfðu tekjur af staðgreiðsluskyldri atvinnu sem samsvarar einni klukkustund á viku. Þetta er í samræmi við skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofunarinnar á því hverjir teljist starfandi. Þeir eru einnig taldir með sem voru í fæðingarorlofi frá vinnu sem og þeir sem skiluðu staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi á því tímabili sem gögnin ná yfir. Sá sem fæddur er erlendis og á foreldra og báða afa og ömmur sem einnig eru fædd erlendis, telst innflytjandi samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar. Aðrir teljast hafa einhvern íslenskan bakgrunn.
Um er að ræða bráðabirgðatölur sem geta tekið breytingum yfir tíma þar sem gæði grunngagna eru betri fyrir nýrri ár.
Rétt er að taka fram að allar tölur hafa verið námundaðar að heilum tölum og því þarf samtala undirliða ekki að koma heim við heildartölur.
Flokkurinn Ferðaþjónusta og tengdar greinar er settur saman úr nokkrum atvinnugreinum í ÍSAT 2008 kerfinu: Tveggja stafa deildunum, 55, 56, 79, 90 og 92 og fjögurra stafa greinunum 4910, 4931, 4932, 4939, 5010, 5030, 5110, 5221, 5222, 7711, 7721, 7734, 7735, 8230, 9102, 9103, 9104, 9311, 9319, 9321, 9329.
Mynd: pixabay