Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum kjörgengum manni að stutt er til forsetakjörs á Íslandi. Ég hef yfirleitt ekki borið pólitískar skoðanir mínar á torg, og ætla ekki heldur að gera það hér, en langar til að deila með ykkur nokkrum orðum um ferð okkar Kristínar minnar til Las Palmas, þar sem við áttum þess kost að kjósa utan kjörfundar í forsetakosningunum.

Við höfðum frétt af því á facebook að Íslendingar á Gran Canari gætu farið til Las Palmas að kjósa, og einnig væri það hægt fyrir sunnan, í Maspalomas, en Las Palmas hentaði okkur betur.

Auðvitað kynntum við okkur málið vel og fundum haldgóðar upplýsingar á vefsíðum yfirvalda heima á Íslandi, auk þess sem við birtum frétt á trolli.is öðrum til fróðleiks og upplýsingar.

Við hjónin fórum til Kanaríeyja í byrjun febrúar s.l. og höfum verið hér síðan, á stóra heims-grímuballinu sem nú ríkir um víða veröld.

Kosningafyrirkomulagið var þannig að maður átti að panta tíma milli kl. 9 og 12 dagana 10. – 12. júní. Fyrir sunnan er það á morgun, 15. júní milli kl. 11 og 14.

Við hjónin sendum tölvupóst til ræðismanns Ísland í Las Palmas og pöntuðum tíma fimmtudaginn 11. kl. 11:30, sem sagt undir lok annars dagsins sem í boði var í Las Palmas.

Þegar við hellisbúarnir förum til byggða, og þá sérstaklega ef ferðinni er heitið til Las Palmas er eins gott að hafa handbært gott leiðsögu app, því oft hef ég tekið rangar beygjur í borginni þeirri. Ég hef af fyrri reynslu lært að Google maps virkar alls ekki vel þar, manni er stundum sagt að fara inn á eða út úr hringtorgum sem hvergi eru sjáanleg og beygja til hægri eða vinstri þar sem það er einfaldlega alls ekki í boði.

Því höfum við notað annað app sem hefur reynst mjög vel, jafnvel í Las Palmas, en það ágæta app heitir Waze og ku vera mikið notað í henni Ameríku. Waze fylgist mjög vel með umferð og bendir manni á fljótlegustu leiðina miðað við umferð og umferðartafir á líðandi stundu.

Við lögðum af stað frá bænum Vecindario á Gran Canaria með Waze að vopni, full stolti og gleði yfir því að mega nýta kosningaréttinn okkar þrátt fyrir að vera erlendis. Það var reyndar eitt atriði sem olli nokkrum kvíða eða óvissu hjá mér, ég gat hvergi nokkurs staðar fundið vegabréfið mitt !!

“Kristín fær þó a.m.k. að kjósa” hugsaði ég og af stað var haldið. Hún hafði reyndar gert smá athugasemd við klæðaburðinn hjá mér, stuttbuxur og inniskór, og hafði orð á því að hér áður fyrr, og jafnvel enn í dag, klæddi fólk sig upp og konur færu jafnvel í lagningu áður en farið væri á kjörstað.

“Ég gef nú ekki mikið fyrir svoleiðis lýðræði, ef maður þarf að vera uppá búinn til að mega kjósa” varð mér að orði, sem var látið gott heita og málið þar með útrætt.

Þegar við pöntuðum tímann hjá ræðismanninum fengum við svar í tölvupósti með loftmynd sem sýndi hvar ætti að ganga inn í bygginguna þar sem kosningin færi fram. Gallinn var sá að myndin var helst til þröng þannig að í fyrstu var erfitt að átta sig á hvernig ætti að komast þangað. Þar kom Waze sterkt inn og með því að slá inn heimilisfangið virtist þetta vera hið einfaldasta mál.

Við höfum nokkrum sinnum áður keyrt til Las Palmas en ég hef alltaf haft smá kvíða yfir ferðalögum þangað, sennilega vegna þess að ég er ekki mikið borgarbarn og villist gjarnan í borgum, og þá sérstaklega einmitt í þessari borg. Svo er fjallajeppinn okkar ekki sá liprasti í þröngum götum og oft erfitt að finna stæði sem dugar, en alltaf hefur þetta þó bjargast einhvern veginn, þrátt fyrir pirraða leigubílstjóra sem eru ósparir á flautuna þegar sveitamenn eru að vandræðast í þeirra umdæmi.

Þegar Waze var búinn að leiða okkur í námunda við áfangastaðinn var farið að huga að bílastæði og viti menn, ég sá P skilti utan á bílastæðahúsi þarna skammt frá og smeygði mér þar inn um tilheyrandi aðgangsstýringu. Svo hófst leitin að stæði þarna inni. Við ókum hring eftir hring, alltaf á nýrri og nýrri hæð og að lokum fannst heppilegt stæði á 7. hæð!

Vel gekk að finna lyftu fyrir gangandi til að komast aftur niður á götuna, en þá blasti við ákveðinn vandi. Við komum út einhversstaðar allt annarsstaðar en við fórum inn. Tíminn flaug áfram og nú fór ég að verða stressaður yfir því að mæta á réttum tíma. Við sáum ekki til sjávar eða fjalla og Waze var einhvern veginn frosið svo við vissum ekkert í hvaða átt skyldi halda.

Við tókum stefnu sem okkur þótti líkleg, ég með frosið Waze og Kristín með Google maps sem eins og áður sagði hefur oft leitt okkur á villigötur í Las Palmas, sérstaklega þar sem við vorum inn á milli hárra bygginga. Þegar við höfðum gengið nokkra stund komum við að stóru fallegu húsi sem virtist vera óperu- eða tónleikahús. Ekki tókst þó að finna sannfærandi inngang í það, samkvæmt ljósmyndinni frá ræðismanninum.

Við snerum við og það rifjaðist upp fyrir mér að byggingin á myndinni væri mjög nálægt hraðbrautinni, svo það leit út fyrir að vera bygging ekkert allt of langt frá. Þegar þangað var komið virtist gönguleiðin vera lokuð með stóru stálgrindahliði, klukkan alveg að verða, svo nú voru góð ráð dýr.

Ég ákvað að hringja bara á skrifstofuna, því svo vel vildi til að símanúmer fylgdi svarpóstinum. Það stóð ekki á svari og út kom kona sem hleypti okkur inn og staðfesti að við værum á réttum stað, og klukkan 11:29 svo þetta slapp.

Þegar inn var komið þurfti að spritta hendur, auk þess sem allir voru með grímur fyrir andlitinu, og við líka.

Aðstoðarkona ræðismannsins vísaði okkur inn í sal þar sem yrði kosið. Skömmu síðar birtist ræðismaðurinn og upp hófst umræðan um það hvort ég gæti kosið án þess að hafa vegabréf. Það runnu tvær grímur á ræðismanninn, (hann var reyndar ekki með grímu fyrir en virti að sjálfsögðu fjarlægðar mörkin), en þegar ég dró upp ökuskírteinið léttist brúnin á mannskapnum og var það látið duga til að sanna deili á mér.

Nú hófst útskýringin á fyrirkomulagi kosningarinnar. Við þurftum að fylla út ýmis plögg til að gera grein fyrir okkur og gekk það vel. Svo var mér réttur kosningaseðillinn og sagt að ég ætti að skrifa fullt nafn þess frambjóðanda sem ég vildi kjósa.

Stressið við að komast tímanlega á kjörstað varð til þess að ég gat bara alls ekki munað hvað hann heitir aftur fullu nafni, þarna þessi sem ég ætlaði að kjósa, hélt einhvern veginn að maður ætti bara að krossa við, svo ég spurði hvort ræðismaðurinn væri með nöfnin tiltæk. Það kom lítilsháttar fát á ræðismanninn og aðstoðarkonan fór hamförum á tölvunni til að finna fullt nafn frambjóðendanna. Hann hafði á orði að við værum fyrst til að kjósa í þessari kosningu og þetta væri góð spurning sem hann vildi hafa svarið við á reiðum höndum.

Þegar nöfnin lágu fyrir var einfalt að skrifa viðeigandi nafn á kjörseðilinn, (það byrjar á Guð), sem síðan var settur í sérstakt umslag. Mér fannst reyndar skrýtið að ég átti að merkja umslagið með mínu nafni, kennitölu og heimilisfangi á Íslandi, en hvað um það svona er þetta bara. Líklega til að einfalda yfirkjörstjórninni heima að merkja við að ég væri búinn að kjósa. Mér er svo sem sama líka hvort einhver kíkir í umslagið og sér hvern ég kaus.

Við áttum líflegar og skemmtilegar samræður við ræðismanninn og aðstoðarkonuna sem eru bæði hið ágætasta fólk. Ég fékk góðar leiðbeiningar um hvernig ég ætti að snúa mér ef vegabréfið finnst alls ekki fyrir heimferð.

Í bakaleiðinni stoppuðum við í litlu huggulegu bakaríi og fengum okkur kaffi og sætabrauð, svona smá kosningakaffi, ánægð með að hafa nýtt kosningaréttinn.

Kristín Sigurjónsdóttir
Kristín Sigurjónsdóttir í kosningakaffi

Þegar maður dvelur langtímum erlendis, eins og við höfum gert, kemur oft upp í hugann gleði yfir því að mega kjósa, hvort sem það er til forseta, alþingis eða sveitarstjórnar. Það eru enn til lönd þar sem lýðræðið er í molum, eða jafnvel ekki til staðar.

Að lokum við ég minna lesendur á að hvernig sem spár í aðdraganda kosninga eru, skiptir öllu máli að kjósa, hvort sem maður telur sinn mann öruggan eða ekki.


Lifið heil,
Gunnar Smári Helgason.