Orð gegn orði er nýtt elektrónískt rokklag með skínandi poppáferð. Lagið er í spilun á FM Trölla.

Það er óhætt að segja að það kveði við nýjan tón í tónlist Guðmundar R. en lagið er um margt mjög ólíkt því sem hann hefur sent frá sér síðustu ár. Lagið er unnið með tónlistarmanninum Árna Bergmann, einum meðlima dönsku elektró-rokkhljómsveitarinnar Hugorm sem notið hefur mikilla vinsælda ytra. Hugorm eru nýlega tilnefnd sem besta live hljómsveitin á dönsku Gaffa tónlistarverðlaununum ásamt Frank Hvam sem allir þekkja úr Klovn.

Persneska strengjahljóðfærið santoor leikur stóra rullu í laginu og ljáir því vissan eyðimerkurblæ og danska söngkonan Marianne Storm litar það með klassískum söng þegar líður á lagið. Þess má geta að söngkonan kann ekki stakt orð í íslensku en var fljót að læra rétta framburðinn!

Um lagið segir Guðmundur:
„Eins og orð geta verið falleg þá geta þau líka verið meiðandi og hættuleg. Á netinu er stundum allt látið flakka og oft beinlínis framin mannorðsmorð að óathuguðu máli. Það sem búið er að skrifa og segja er erfitt að taka til baka og mannorðsþvottavélar eru ekki til. Oft eru þeir sem fara ógætilega með orðin í ákveðinni vörn og reiðin hleypur oft með fólk í gönur. Við óskum þess að fólk noti orðin frekar til að hrósa, vekja von og ljá ljós í hjarta í stað þess að meiða. Fokk stafrænt ofbeldi!“
(Það er tilviljun að efni textans rímar fullkomlega við herferð Jafnréttisstofu Orðin okkar.)

Verk Guðmundar R á Spotify