Í hversdagsleika síðustu aldar voru börn, unglingar og fullorðnir, ekki svo upptekin við að stara ofan í snjallsíma eða eyða frítíma sínum í tölvuleiki. Nei, við vorum mikið að dunda í allskonar handavinnu og föndri og þá sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Mér er það minnistætt hversu mikið skólakerfið og einnig æskulýðsstarfsemi lagði í að kenna okkur handavinnu og að föndra.

Í lok skólaársins voru síðan haldnar risastórar sýningar á handavinnu afurðum vetrarins og voru oft allar skólastofur fullar af allskonar sauma- og smíðavinnu, sem og listaverkum sem við börnin vorum mjög stolt af. Þá fengum við ekki bara einkunnir, heldur líka hrós frá vinum og ættingjum.

ATH: Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta stækkuðum ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla myndatexta og söguna í heild sinni.

Pistlahöfundur á sér margar góðar minningar úr bæði Barnaskólanum og Gagnfræðiskólanum heima á Sigló og ég minnist þess t.d. hversu mikið við lögðum í að búa til músastiga og annað jólaskraut og láta bestu teiknarana í bekknum mála flotta litkrítamynd með jólaþema á skólastofutöfluna. Úr þessu varð mikil samkeppni um að fá viðurkenningu fyrir best skreyttu skólastofuna.

Handavinnukennslan kenndi okkur ekki bara að nota ýmis tól og tæki, heldur líka þolinmæði og úthald og minnist ég þolinmæðiskrefjandi vinnu við að fíla og pússa litla fiska og fugla sem Helgi Sveins handavinnukennari hafði sagað gróflega út fyrir okkur strákana. Þetta var lygilega krefjandi mikil þolinmæði- og nákvæmnisvinna. En stoltið og launin fyrir erfiðið komu í lokin og margir eiga þessa fiska og fugla enn, heima sem stofustáss.

Stelpurnar virðast hinsvegar alltaf hafa framleitt miklu meira en við strákarnir, eins og sést á vel á eftirfarandi ljósmyndum. En ég minnist þess að hafa fengið að prufa saumaskap hálfan vetur og mér fannst bara nokkuð gaman að bródera og sauma út mynd með krosssaum.

Annars voru dömurnar með óteljandi saumaklúbba út um allan bæ og ég minnist þess að í Zíon húsinu hafi líka verið sauma og föndurklúbbur bara fyrir stelpur.

Sjá meira hér um starfsemi Zíon o.fl.

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!
Myrkraherbergi í Æskulýðsheimilinu við Vetrarbraut 1965. Ljósmyndari og leiðbeinandi: Steingrímur Kristinsson.
Frá v. Stefanía Skarphéðinsdóttir, Garðar Stefnisson, Steinþór Þóroddsson, Leifur Jónsson og Guðni Sveinsson.

Talandi um ljósmyndir, þá er það með ólíkindum hversu mikið er til af ljósmyndum í Ljósmyndasafni Siglufjarðar sem sýna okkur löngu horfin hversdagsleika, sem nú, hálfri öld seinna, er gaman að skoða og minnast á, kannski jafn ómerkilega hluti eins og sýningar á skólahandavinnu og föndri, sem voru hefðir og barn síns tíma.

Einhvernvegin, verður það oft skemmtilegra, að skoða gamlan hversdagsleika, en að fletta bara í uppstilltum hátíðisdaga ljósmyndum.

Pistlahöfundur hefur minnst á þetta áður, sjá meira hér:

Nostalgía: Jóladúkar og klukkustrengir o.fl. Myndasería.

Allt þetta er mögulegt að sjá og skoða, þökk sé yfir 70 ára sjálfboðavinnu meistara Steingríms Kristinssonar og hans ótrúlega áhuga á að mynda allt og ekkert sem hann sá og þar fyrir utan halda til haga ljósmyndum og sögum frá sjálfum sér og öðrum með því að skapa hversdagssögu bæjar á vefsíðum og ekki síst með stofnum Ljósmyndasafns Siglufjarðar.

Gömul hefð

Eins og sjá má á myndunum sem Kristfinnur Guðjónsson, bæjarljósmyndari tók í lok 1940 og byrjun 1950 er löng hefð fyrir að sýna handavinnu og listsköpun nemenda.

Skóla handavinnusýningar

Þetta var mjög svo fjölbreytt og metnaðarfull handavinnuframleiðsla.

Handavinnusýning í Barna- eða Gangfræðiskóla Siglufjarðar, í kringum 1962. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Pistlahöfundur spjallaði við ónefnda Siglfirska vinkonu í undirbúningsvinnu fyrir þessa handavinnu samantekt og sagði hún eftirfarandi með bros á vör:

“Virkilega gaman að rifja þetta upp og ég man sérstaklega vel eftir dögunum fyrir sýningar, því þá þurfti maður að klára allt og skila af sér.
Man þegar ónefnd skólasystir mín, þurfti bíl undir allt sitt góss, en ég labbaði bara heim með mitt saumadót undir annarri hendinni eftir sýninguna. Ég fékk samt hærri einkunn en hún og mamma mín sagði, að það væri eðlilegt, mamma hinnar hefði unnið allt fyrir hana.
Já, það var kannski líka samkeppni á milli mæðra, 🙈 en ég var látin vinna mitt, en foreldrarnir voru mjög metnaðarfullir fyrir hönd barnanna.

Handavinnusýnig í Gagganum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Basar og tombóla

Þegar kom að því að halda basar eða tombólur, sem voru algengar fjáröflunar leiðir fyrir ýmiskonar starfsemi, birtust oft þar á borðum handavinna húsmæðra sem og allskonar varningur sem var gefin úr einhverjum af hinum fjölmörgu verslunum Siglufjarðar.
Annars er líka gaman að sjá hatta- og hárgreiðslutískuna hjá dömunum.

Kvenfélagsbasar. Næst veggnum er Fanney Sigurðardóttir, Anna Snorradóttir, Svanhildur Eggertsdóttir ( Lóa ) Sóley Gunnlaugsdóttir og Þorfinna Dýrfjörð ? Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Föndur, listsköpun og tómstundir í Æskulýðsheimilinu við Vetrarbrautina (Æskó)

Margar kynslóðir Siglfirðinga eiga sér góðar minningar frá Æskó. Þetta stóra, þriggja hæða hús er löngu horfið, en minnigarnar um gríðarlega framsækna og fjölþætta starfsemi lifa enn. Þökk sé Steingrími og mörgum öðrum, sem með ötulli sjálfboðavinnu komu að stofnum Æskulýðsheimilis Siglufjarðar. Þar fundu mörg ungmenni hæfileika sem þau vissu ekki að í þeim byggi og þarna við Vetrarbrautina heima á Sigló, skapaðist t.d. ævilangur ljósmyndaáhugi pistlahöfundar.

Júlíus Júlíusson ( Júlli Júll). Var lengi vel í forstöðu fyrir Æskulýðsheimili Siglufjarðar og þarna stendur hann stoltur við lista yfir allt sem hægt var að dunda sér við í Æskó. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Pistlahöfundur,Nonni Björgvins, ungur að árum í framköllunarherberginu í Æskó. Ljósmyndari er Jökull Gunnarsson, vinur minn. Við Jökull eyddum mörgum mörgum tímum þarna í myrkrakompunni.

Safnarasýning og fullorðinsföndur

Pistlahöfundur hefur ekki upplýsingar um hvar og hvenær þessar sýningar voru settar upp, en myndirnar sýna að áhugamál bæjarbúa eru margskonar og sköpunargleðin mikilfengleg.

Að lokum

Siglufjörður æskuáranna, með fjárhúsahverfi uppi í fjalli og fullt af bryggjum og síldarbrökkum. Samsett ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.

Höfundur samantektar og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir í greinartexta.