Skógarauðlindin – innviðir og skipulag er yfirskrift Fagráðstefnu skógræktar 2024 sem hefst í dag, miðvikudag, í Hofi á Akureyri og stendur fram á fimmtudag. Um 140 manns hafa skráð sig til þátttöku á ráðstefnuna hvaðanæva af landinu.

Fyrri dagurinn er helgaður yfirskrift ráðstefnunnar og þar verður spurt spurninga eins og:

  • Hver og hvar er skógarauðlindin?
  • Hverjar eru áskoranir skógræktenda í skipulagsmálum?
  • Hvert er gildi skógarumhirðu?
  • Hvaða máli skiptir aðgengi í skógana?
  • Hver er hagræn staða skógarauðlindar á Íslandi
  • Og hvað er sjálfbær auðlindastýring?

Á ráðstefnunni verða kynntar skattaívilnanir í skógrækt í Skandinavíu og flutt erindi um gildi umhverfis fyrir nám komandi kynslóða. Einnig verða í fyrsta sinn afhent Hvatningarverðlaun skógræktar, sem eru samstarfsverkefni Skógræktarfélags Íslands, Lands og skógar og Bændasamtakanna.

Síðari dag ráðstefnunnar verða fjölbreytt erindi og veggspjaldasýning um margvísleg viðfangsefni sem tengjast skógum og skógrækt. Spurt verður hvort bjarga þurfi blæöspinni og rætt um asparglyttu sem herjar á alaskaösp og víðitegundir. Rætt verður um seiglu skóga og áhrif skógarelda, áskoranir í timburflutningum á Íslandi, áhrif áburðargjafar á losun eða bindingu metans og nituroxíðs í jarðvegi og fleira.

Margir áhugaverðir viðmælendur verða á ráðstefnunni, vísindafólk hjá meðal annars Landi og skógi, Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar verður líka Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður hinnar nýju stofnunar, Lands og skógar, sem tók við af Skógræktinni og Landgræðslunni um áramótin.

Nánar um dagskrá ráðstefnunnar á vef Lands og skógar.