Nýr ráðherra mennta- og barnamála Ásmundur Daðason hitti í fyrsta sinn stjórnendur skóla á framhaldsskólastigi, fulltrúa Menntamálastofnunar og Sambands íslenskra framhaldsskólanema á samráðsfundi ráðuneytisins í gær. Á fundinum var horft til framhaldsskólastarfs á farsóttartímum, hvað megi læra og nýta til framtíðar til farsældar fyrir nemendur og starfsfólk.

Í ávarpi sínu dró ráðherra fram áherslur ríkisstjórnarinnar á mikilvægi snemmtæks stuðnings við börn og samfellu í allri þjónustu sem börnum er veitt. Hann ræddi um mikilvægi þess að vinna að farsæld nemenda og benti á að í kjölfar COVID-19 farsóttarinnar stöndum við frammi fyrir fjölda áskorana, sem eru óbeinar afleiðingar samkomutakmarkana og hafa komið sérstaklega niður á framhaldsskólanemum.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Nemendur eldri en 18 ára eru rúmlega 60% hlutfall allra nemenda í framhaldsskólakerfinu. Ég sem nýr ráðherra mennta- og barnamála geri mér því fyllilega grein fyrir því að við erum hér líka að ræða um eldri nemendur þegar við erum að ræða um framhaldsskólana. Þessir nemendur eru jafn mikilvægir og þeir yngri. Nemendur sem þarf líka að hlúa að, veita greiðan aðgang að námi og þjónustu. Fjölbreytni er einn af mikilvægustu kostum íslenska framhaldsskólastigsins og ber að fagna því hversu vel skólum á framhaldsskólastigi tekst að mæta fjölbreyttum þörfum og áhugasviði nemenda á breiðum aldri. Brotthvarf nýnema hefur farið minnkandi ár frá ári og sífellt fleiri ljúka prófi á þremur árum.“

Á fundinum var kynnt samstarf framhaldsskóla á Norðausturlandi, móttaka flóttafólks frá Úkraínu, lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og fyrstu niðurstöður rannsóknar Háskóla Íslands um áhrif farsóttar á framhaldsskólann. Í framhaldi var hópvinna um áhrif á skólastarf og hvernig hægt væri að vinna að farsæld nemenda á framhaldsskólastigi. Fyrirlesarar voru frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, úr röðum skólameistara framhaldsskóla, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema auk fulltrúa ráðuneytisins.

Fundurinn, sem iðulega er haldinn tvisvar á ári, hefur ekki verið haldinn í tvö ár sökum samkomutakmarkana. Af því tilefni gafst fleiri fulltrúum skóla á framhaldsskólastigi tækifæri að taka þátt. Samkoman var kærkomið tækifæri fyrir ráðamenn, sérfræðinga og skólastjórnendur að hittast á ný og ræða framtíð íslenska framhaldsskólakerfisins.


Mynd: Stjórnarráðið