Heildarmat fasteigna á Norðurlandi vestra árið 2020 hækkar að meðaltali um 6,7% frá yfirstandandi ári, að því er fram kemur á vef Þjóðskrár Íslands. Mest er hækkunin í Blönduósbæ en þar hækkar matið að meðaltali um 13% og á Skagaströnd um 10,7%. Í Húnaþingi vestra hækkar matið um 9,6%, í Húnavatnshreppi um 8,5% og í Skagabyggð 7,8%. Hækkunin í Skagafirði er 5,5%. Heildarmat fasteigna á landinu öllu hækkar að meðaltali um 6,1%. Fasteignamat á sérbýli á Blönduósi hækkar um 16,1%, sem er með því mesta á landinu.
Landshækkunin nú er mun minni en varð milli áranna 2017 og 2018 þegar matið hækkaði að meðaltali um 12,8%. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar á þessu ári og tekur það gildi 31. desember 2019 og gildir fyrir árið 2020. Frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat er til 30. desember 2019.
Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 5,3%, um 9,8% á Suðurnesjum, um 10,2% á Vesturlandi, um 6,7% á Norðurlandi vestra, 7,4% á Norðurlandi eystra, 6,7% á Austurlandi og um 8,0% á Suðurlandi. Af einstaka bæjarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest á Akranesi eða um 19,1%, um 14,7% í Vestmannaeyjum og um 14,2% í Suðurnesjabæ.
Fasteignamat íbúðahúsnæðis hækkar að meðaltali um 15,5% í Blönduósbæ og skiptist þannig að sérbýli hækkar um 16,1% og fjölbýli um 9,5%. Meðalhækkun íbúðarhúsnæðis á Skagaströnd er 13,1%, þar af er sérbýli að hækka um 13,7% og fjölbýli um 4,4%. Sjá má nánari sundurliðun á fasteignamatinu eftir tegund húsnæðis hjá sveitarfélögum hér.
Nánari upplýsingar má finna á vef Þjóðskrár Íslands.