Munúð og mannapi

Kaffi Rauðka mun eina kvöldstund breytast í alþjóðlegan kabarettklúbb og bjóða Siglfirðingum upp á einstaka skemmtun sem Margrét Erla Maack stendur fyrir. “Fullorðins fjölbragðasýningin” Búkalú verður á Siglufirði 7. júní og er hún gerð fyrir alls konar rými – leikhús, knæpur og tónleikastaði. Hér er viðtal við Margréti sem er núna í sýningaferðalagi í New York og milli sýninga þar raðar hún upp ferðaáætlun Búkalús.


Hvernig myndir þú lýsa sýningunni sem verður á Siglufirði?

Sýning er púsluspil skemmtiatriða þar sem húmor og hold er í fyrirrúmi. Margir þekkja fyrirkomulag svona sýninga úr kvikmyndum eins og Cabaret og Moulin Rouge – þetta eru stutt atriði sem raðað er saman í skemmtikokkteil. Á ensku er svona sýning kölluð variety show – ég hef notað fjölbraðgasýning en kabarett nær vel utan um formið. Þegar ég henti út önglum um sýninguna til vina minna í senunni vildu allir sem ég hafði samband við koma með – svo mitt eina vandamál, ef vandamál skyldi kalla, var að raða saman sýningum svo þær væru sem fjölbreyttastar.

Hverja einustu helgi verður Búkalúum skipt út svo sýningarnar eru ólíkar milli helga auk þess sem skemmtiatriðin taka alltaf mið af hverjum skemmtistað fyrir sig. Á Sigló verðum við nokkuð mörg og þetta verður djúsí sýning. Flestir gestirnir koma frá New York: Kabarettkóngur Brooklyn, Eric Schmalenberger, burlesquedívurnar Darlinda Just Darlinda og Boo Boo Darlin, og munúðarfulli mannapinn Evil Hate Monkey. Frá París fáum við fettibrettuna Rosabelle Selavy og frá Glasgow kemur skoski boylesque-prinsinn Tom Harlow. Vert er að taka fram að sýningin hentar ekki þeim sem óttast undur mannslíkamans. 


Hvað er þetta burlesque?

Burlesque er tiltölulega nýtt form í skemmtimenningunni á Íslandi. Þetta eru atriði sem blanda saman kynþokka, húmor og hæfileikum og leitast eftir að sýna jákvæða kyntjáningu á forsendum þess sem sýnir. Boylesque er það svo kallað þegar karlmenn sýna burlesque. Öll smíða atriðin sín sjálf, hanna og sauma búninginn – þetta eru svona sexí fjögurra mínútna leiksýningar. Það sem mér finnst skemmtilegast við burlesque-ið að konur hafa einstaklega gaman að því – að sjá alls konar líkama og það er hressandi að sjá kvenlíkamann sem fyndinn og sterkan en ekki bara viðkvæman og sexí fyrir einhvern annan. Á öllum þeim sýningum sem ég hef haldið á Íslandi hefur 70% áhorfenda verið konur – sem skríkja og skellihlæja. Formið hentar einstaklega vel fólki með internet-athyglisspan.


Af hverju er sýningin bönnuð innan 20 ára?

Það er fyrst og fremst því hún er haldin á vínveitingastöðum. Svo er hún svona í þokkafyllri kantinum.


Nú hefur þú ferðast að sýna kabarettsýningar víða – hvernig áhorfendur eru Íslendingar?

Íslendingar eru frábærir áhorfendur. Þeir eru gjarnan feimnir fyrst en svo gefa þeir í og undir rest eru þeir orðnir mjög háværir. Ég er nýkominn heim úr sýningarferðalagi um Evrópu – Bretar eru of kurteisir, klappa bara á réttum stöðum. Eistar eru hljóðlátir, en brosa allan hringinn og tala mikið eftir sýningar við listafólkið um hvað það var gaman. Bestu áhorfendurnir eru New York-búar, því þeir eru í góðri þjálfun, en Íslendingar koma fast á hæla þeirra. Ég hef mikla trú á Siglfirðingum, enda stemmingsfólk. Gaman að segja frá því að næstflestir miðar eru seldir á Siglufirði. Það er bara Hólmavík sem toppar í miðasölu – enn sem komið er.

Miðasala og nánar um sýninguna – myndbrot og fleira er að finna á www.bukalu.net – Miðinn í forsölunni á heimasíðunni kostar aðeins 2900 krónur en kostar 3900 við hurð. 

Aðsent