Í bæjarblaðinu Siglfirðing árið 1950, er sagt frá uppsetningu á fyrsta norræna vinabæjar jólatrénu á Ráðhústorginu, en í sömu grein segir einnig eftirfarandi: “Skömmu fyrir jólin 1950 beindi Fegrunarfélag Siglufjarðar þeim tilmælum til verslana „að láta lifa ljós í sýningargluggum sínum yfir jólin … í tilefni af því að öldin er hálfnuð.” Sjá meira hér í skemmtilegum minningum um: Siglfirsk jól!| sksiglo.is | 24.12.2008 |
Undirritaður gat auðvitað ekki stillt sig og byrjaði strax að kíkja á ýmislegt sögulegt varðandi Íslensk FEGRUNARFÉLÖG og dregst ég þá ósjálfrátt samtímis inn í eigin Siglfirskar minningar um t.d. þátttöku í skógræktar sumarvinnu. Kartöflu og grænmetis ræktun í skólagörðum og ekki síst minningar varðandi mikla vitundarvöknun um heimahúsa garðrækt með tilheyrandi nytja og skrautjurtum.
Sem og minningum um lærdóm varðandi virðingu fyrir náttúrunni, fegrun og umhirðu á okkar sameiginlega umhverfi. Gegnum t.d. Skátastarfsemi og ekki síst í bæjarsumarvinnu barna og unglinga vinnuflokka, heima á Sigló í denn. En þessi barna sumarvinna var upphaflega mest tengd Skógræktarvinnu, en seinna einnig við árlega almenna umhirðu og fegrun bæjarins.
Margt og mikið af því sem við teljum sjálfsagt varðandi umhverfismál í dag, var það ekki í barnæsku okkar og krafðist mikillar frumkvöðla hugsjóna og hugarfarsbreytinga vinnu í fleiri áratugi. Þar af getur það verið sögulega athyglisvert að kíkja nánar á upphaf þessarar miklu umhverfis fegrunar hugarfars og garðræktunar byltingu, sem byrjaði um miðja síðustu öld.
“Fegrunar hugmyndafræði” mannlegs anda og umhverfis, kemur úr ýmsum áttum, löngu áður en ég eða þú fæddumst inn í hin mikla hugmynda áhrifaheim sem byrjaði t.d. með stofnun Ungmenna,- Góð Templara stúku- og Skógræktarfélaga, víða um land.
Sjá t.d. meira hér:
Eyrarrós 68, sjómannaheimili og skógrækt – Minningar & 25 myndir
Siglufjörður á sér merkilega og margbrotna sögu og einhvers staðar verður þessi “fegrunar fræðilega hliðarspors Siglósaga” að byrja…
Þetta er sóðalegur bær í fallegri fjallaumgjörð…
… var oft sagt um Siglufjörð á síðustu öld og við Siglfirðingar munum svo sannarlega tímanna tvenna. Annars vegar tímabilið þar sem lítið var tekið tillits til náttúrunnar eða fegurðar á öru uppbyggingar tímabili síldarhöfuðborgar Íslands. Þar sem lóðabrask og manna- og skepnu- bústaðir renna saman í belg og biðu við síldarslors iðnaðarbyltinguna miklu.
Guði sé lof, sá Séra Bjarni Þorsteinsson að þessi þenslu ofsi var ekki boðlegur mannlegu þörfum og teiknaði upp bæjarskipulag sem okkur líkar við, sem skilur af að mestu leyti, iðnað og manneskjur. Við gátum þar á eftir loksins, í nokkra áratugi, spásserað stolt um götur og torg, í nokkuð þrifalegu, manneskjuvænu og menningarlegu bæjarfélagi.
Hins vegar neyðumst við Siglfirðingar einnig til þess að muna eftir löngu niðurníðslutímabili, sem kom eftir síldarhvarfið og í lok þess tímabils byrjar:
Stærsta hreinsunar og fegrunarátak Íslandssögunnar!

Margir mér bæði yngri og eldri Siglfirðingar minnast þess eflaust með hrylling í huga að á árunum eftir síld, neyddumst við ekki einungis til að horfa á eftir vinum okkar sem fluttu með foreldrum í atvinnuleit úr bænum. Heldur einnig að við sem eftir urðum, þurftum líka í nær 3 áratugi að horfa á yfirgefin hús, bryggjur, brakka og verksmiðjur, hrynja, rotna og grotna.
Aðkomufólk hreytti þá oft út úr sér:
Af hverju gerið þið ekki neitt í þessu?
En við Siglfirðingar áttum sjálfir mest lítið í öllu þessu drasli, því niðurníðslu eignirnar tilheyrðu flest allar peningalausum gjaldþrotabúum sem enginn vildi kannast við að eiga eða hafa nokkra ábyrgð á.
Sumir nefndu að besta lausnin væri að kveikja bara í þessu gamla síldarvinnslu rusli, en þökk sé t.d. ör FÁUM hugsjónar mönnum og konum, var ýmsu bjargað frá áratugum af risastórum áramótabrennum.
Um 1980, vill ég meina, byrjar stærsta hreinsunar og fegrunarátak Íslandssögunnar og ekkert “Fegrunarfélag” kom og gaf Siglfirðingum verðlaun fyrir þetta stórbrotna hreinsunarátak. Held það sé nokkuð ljóst að ekkert Íslenskt bæjarfélag hefur útlitslega breyst jafn mikið og Siglufjörður.
Sumir spurðu síðan seinna, eftir glæsilega uppbyggingu Síldarminjasafnsins:
Var samt ekki hægt að bjarga meiru?
Hmm… Jú, eflaust, en hver var svo sem til í að borga fyrir það?

Brotajárn, blóm og sauðfé!
Á unglingsárum mínum, (1974 – 80) minnist ég þess einnig hvað það gat verið andstæðufull upplifun að eina stundina var maður í ævintýraleikjum og kaðlasveiflum innan um t.d. Rauðku verksmiðju brotajárnshrúgur og svo stuttu seinna var maður komin í fallegan blómagarð suður á Laugarveginum. Sjá meira hér:
KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA
Á þessum árum virðist mér samt, að þrátt fyrir niðurníðsluna og slæman efnahag, voru margir Siglfirðingar á þessu volæðisárum, samt að reyna að halda uppi einhverskonar fegrunar menningar hugsjónum í gegnum viðhald og ekki síst garðrækt kringum sín eigin hús. Það er eins og að garðræktunar og fegrunar hugmyndafræðin frá stofnun Fegrunarfélaga kringum 1950 lifi enn góðu lífi.
Í minningum mínum virðist mér það einnig vera þannig, að samfara auknum áhuga bæjarbúa á heimahúsa garðrækt, eykst á þessum sömu árum einnig samtímis “hobbí sauðfjárbúskapur.” Líklega er hér um að ræða sterkt samband við vetrarmánaða atvinnuleysi á Siglufirði og fólk er einfaldlega að drýgja út tekjurnar og afla sér og sínum matar.
Garðyrkja og blómaræktun, á ekki beinlínis samleið með lausagangi á sauðfé og þar af verðum við einnig í lokin að minnast á stríðsástandið sem ríkti í áratugi, þegar rollur og garðeigendur voru í stríði, jafnt dag sem langar sumarbjartar nætur.
Sú allra skæðasta af þessum innanbæjar skæruliðarollum var kölluð Túlípana Móra og henni héldu engar girðingar úr görðum húsmæðra fjarðarins fagra.
Ýmislegt athyglisvert um Fegrunarfélög!
Við leit á netinu finn ég blaðagrein í bæjarblaðinu Siglfirðing, sem birtist í tveimur hlutum í ágúst 1948 og ber hún titillinn “Bráðabyrgðarlyktin og bæjarhreinsunin í Reykjavík vorðið 1948.”
Inngangsorð greinarinnar segja okkur nokkuð mikið :

Út frá fyrri tilvísun í greinina varðandi jólaskreytingar o.fl. í verslunum frá 1950, hefur Halldóri Héraðslækni greinilega tekist ætlunarverk sitt og Fegrunarfélag Siglufjarðar virðist næstu árin hafa hin ýmsu afskipti af fagurfræðilegum málum á Siglufirði og eflaust hafa menn sótt sér innblástur frá góðum árangri af þessu mikla hreinsunar og fegrunarátaki í Reykjavík sumarið 1948.
Í fyrri birtingarhluta greinarinnar er mest fjallað um lyktarvandamál sem Reykvíkingar kvarta mikið yfir sumarið 1948, en þá berst mikill fnykur frá Síldar og fiskimjölsverksmiðju sem stendur austan við borgina.
Þetta er sama bræðslulyktin og við Siglfirðingar könnumst svo vel við, en í staðin fyrir að kvarta yfir þessari stækju, þá kölluðu flestir þessa loftmengun einfaldlega peningalykt og aðrir jafnvel verkamanna ilmvatn.
Einstaka sérvitrir Siglfirðingar þorðu þó að láta í sér heyra, varðandi efasemdir um það væri nú líklega ekki einungis hættulaust og hollt og gott innihald í þessari peningalykt. Einn af þessum hugrökku mönnum var umhverfissinninn Guðmundur Góði.
Sjá meira hér:
Guðmundur Góði – Minningar og myndir
Hins vegar er í seinni birtingarhluta, greinarinnar í bæjarblaðinu Siglfirðing 1948, loksins komið að kjarna málsins, þar sem sagt er frá hugmyndum af stofnun Fegrunarfélags Reykjavíkur. Hér er einnig talið upp ýmislegt sem er ábótavant í umhverfismálum borgarinnar. T.d. má þar nefna, órækt og sóðaskap á óskipulögðum svæðum og einnig er bent á að sömu vandamál er víða að finna í öðrum ört vaxandi bæjarkjörnum landsins.
Aðaláhersla er þó lögð á sóðaskap og ábyrgðarleysi lóðareigenda, sem oft á tíðum er einnig heilsuspillandi. Helst vilja menn að allir taki ábyrgð á nærumhverfi sínu án afskipta yfirvalda. Samtímis er farið í hart eftir að heilbrigðisnefndin hefur sent út ýtarlegar auglýsingar og áminningar og eftir það er hreinlega farið í hreinsun og reikningurinn sendur heim til lóðareigenda. Heilbrigðisnefndarmenn eru eitilharðir, þessu á að vera lokið fyrir 17 júní 1948.
Þetta mikla fegrunarátak í höfuðborginni ber góðan árangur og segir t.d. í greininni að:
“Til marks um það hvað menn óttuðust að hreinsað yrði hjá þeim með valdi, skal ég aðeins minnast á fisksalann, sem að kvöldi 16 júní rótaði öllu drasli af lóðinni sinni inn í kjallarann, en þar fann heilbrigðiseftirlitið það við hliðina á fiskinum, nokkrum dögum seinna.“

Einnig er í lokin rætt um rottueyðingar herferð í greininni og enn og aftur minnt á árlega ábyrgð og skyldu allra við að taka þátt í fegrun umhverfisins.

Síðan sjáum við í stuttri dagblaða tilkynningu ári seinna (1949) frá Fegrunarfélagi Reykjavíkur, eitthvað sem flest allir tengja mest við þessi svokölluðu Fegrunarfélög, en það er að verðlauna fallegustu garðana í bænum.
Í fréttablaðinu Alþýðumaðurinn birtist grein 9 nóvember 1948 um undirbúningsvinnu varðandi stofnun Fegrunarfélags Akureyrar og gefur hún okkur góða mynd af þeirri hugmyndafræði sem liggur á bak við stofnun slíkra félaga og að sjálfsögðu hafði Lystigarður Akureyrar þegar vakið mikla athygli, en hann var formlega opnaður fyrir almenning 1912.
“Fegrunarfélag Akureyrar væntanlega stofnað nk. sunnudag.”
Alþýðumaðurinn: 9 nóvember 1948
Í undirbúningsnefndinni eiga sæti þrjár konur og fjórir karlmenn… tillagan er að bænum verði skipt í 5 hverfi og starfi sín félagsdeildin í hverju og hafi sinn hverfisstjóra, sem mæti á stjórnarfundi aðalfélagsins. Þá er einnig svo til þess ætlast að sérstakar barnadeildir verði starfandi innan félagsins og verði þeim stjórnað af börnunum sjálfum, eftir því sem framast er unnt…“
Hér kemur einmitt þessi áhrifa og hugmyndafræðilegi grunnur sem greinilega er lánaður frá t.d. stúkufélaga kerfi IOGT hreyfingarinnar. Óhætt er að segja að nær allir barnaárgangar Siglufjarðar á árunum 1950 – 1990 og jafnvel lengur, hafi verið blessunarlega óafvitandi af að vera samfara t.d. félagsskap í barnastúkufélaginu Eyrarrós 68, einnig leyni meðlimir í Fegrunarfélagi Siglufjarðar. Því þetta rann allt saman í eina heild gegnum ötula vinnu barnaskólakennarans / skólastjórans og skógræktar frumkvöðulsins Jóhanns Þorvaldssonar.
Barna uppeldi sem og ræktun í skólagörðum og skógrækt er langtímaverkefni og Jóhann hafði þessa einstöku þolinmæði og trú á að árgangur verði sýnilegur seinna… löngu seinna. Skógrækt byrjaði t.d. á Skarðsdals svæðinu um 1950, sem sagt fyrir 75 árum síðan. Á ýmsum stöðum í Siglufirði má sjá smá bletti af trjám, þetta eru gömul tréræktunar tilraunasvæði, frá árunum áður en allur kraftur færist í Skarðsdal.
Flestir höfðu upphaflega enga trú á þessum skógræktar og fegrunar hugmyndum Jóhanns.
Síldarkaupstaðurinn og sveitaþorpið Siglufjörður!

Þessi ljósmynd segir okkur heilmikla bæjarsögu, við sjáum risastór síldarplön neðan við Suðurgötu og Hafnargötu bakkann. Stóra tunnustafla rétt norðan við Leirutanga, sem er framtíðardrauma landvinninga uppfyllingasvæði og opnir öskuhaugar samtímis.
Við sjáum einnig að á milli skólagarða og fjárhúsa, má smá sjá móta fyrir garðgirðingum við sum eldri hús, en víða líta garðar meira út sem nýsleginn sveitabæjar tún en íbúðarhúsagarðar. Því fjöldin allur af Siglfirðingum er samfara sumarvinnu í síldinni einnig sauðfjárbændur, eins og sjá má á stærðinni á fjárhúsahverfinu sem og iðjagrænum túnum langt upp í fjallshlíðunum.
Sumir hafa bent á að fjallshlíðar Siglufjarðar hafði í denn verið bæði grænni og fallegri, löngu áður en lúpínan tók yfir og vilja þá meina að fíngert og næringarríkt fiskimjölsverksmiðju ryk hafi borist um allan fjörð, með reyknum úr verksmiðjum bæjarins.
Siglufjörður er lengi vel bæði nútímalegur og tæknivæddur síldariðnaðar kaupstaður og samtímis stórt og mikið sveitaþorp. Garðyrkja og fagurfræðileg nytjajurta og blómaræktin á kannski ekki beinlínis samleið með síldarsöltun eða hvað þá sauðfjárbúskap og greinilegt er á myndinni hér ofar að menn hafa meiri áhuga á að búa til tún fyrir heyskap, en að eyða tíma í að rækta eitthvað fallegt sem ekki er hægt að éta.
Sjá má fleiri merkilegar ljósmyndir hér, í góðri sögu frá Leó Ólasyni: Guðmundartúnið og fólkið í túnfætinum!

Fegrun Íslands!
Í stuttri og hnitmiðaðri grein í Morgunblaðinu 1954 er augljóst að stofnun Fegrunarfélaga víðs vegar um landið hefur borið góðan árangur á örfáum árum. Þessi orð segja okkur einnig nokkuð mikið um tíðarandann sem ræður ríkjum 10 árum eftir að við urðum loksins sjálfstæð þjóð.
“Umhverfismenning og fegrun umhverfisins!“
MBL. 130. tölublað (11.06.1954)
“Á síðari árum hefur gætt vaxandi viðleitni meðal ráðamanna og almennings hér á landi til þess að fegra og prýða umhverfi sitt. – Fegrunarfélög hafa verið stofnuð í einstökum kaupstöðum og lögð hefur verið áherzla á aukið hreinlæti og hirðusemi. Jafnhliða hefur áhugi fólks glæðst mjög fyrir ræktun trjáa og blóma við hús þess...
Síðan kemur dágóður greinarkafli þar sem bent er á að þrátt fyrir góðan árangur í mögrum þéttbýliskjörnum landsins er samt mikill sóðaskapur sýnilegur við þjóðvegi í strjálbýli og við sveitabæi víða um land. Greinarhöfundur er ekki nafngreindur og hann getur ekki stillt sig og sendir lesendum Morgunblaðsins væna móral-pillu í lokaorðum sínum.
“Fólkið í hinum unga þéttbýli okkar kann enn þá allt of lítið að taka tillit hvert til annars í daglegri umgengni….”
og síðan birtast lokaorðin feitletruð:

Á Siglufirði sem í áratugi er það bæjarfélag sem vex hraðast á Íslandi, er í bæjarblöðunum, margoft minnst á sömu ofannefndu sóðaskaps vandamál, eins og sjá má t.d. í þessari “Lögreglu og heilbrigðis reglugerðar” samantekt frá 1920 :
Klonedyke Norðursins 1920 – Skondnar reglugerðir!
Lóða og landvinninga uppfyllingar!
En þrátt fyrir reglugerðir, þá verða greinilega lengi vel ekki miklar framfarir varðandi umhverfismenningar málefni Siglfirðinga, en það virðist vera gömul hefð fyrir því að heilbrigðisnefnd bæjarins:
“…gangi um bæinn rétt fyrir hvítasunnu, til að áminna bæjarbúa um þrifnað, sérstaklega um það, að þrífa til í kring um hús sín, og áminna um að því skyldi lokið fyrir hvítasunnu.. Jafnframt hefir heiibr.nefndin í sama leiðangri heimtað af lóðareigendum, að þeir fylltu upp lóðir sínar, þar sem þess hefir álitizt þörf…
… segir í inngangsorðum að ádeilugrein sem birtist í bæjarblaðinu Siglfirðingur, en þar er Magnús Blöndal öskureiður út í formann heilbrigðisnefndar Siglufjarðar vorið 1934. Varðandi hans illa lyktandi og sóðalegu lóðauppfyllingu.
“..En með hverju er svo þessi lóð fyllt upp? Allrahanda skrani og rusli, kúamykju og mannasaur, eða yfirleitt með því allra versta skrani, sem til fellur frá bæjarbúum. Sjá meira hér: Glefsur úr Siglfirðing 1934 á heimildasíðu Steingríms Kristinssonar
Það virðist lengi vel vera hefð á Siglufirði að fylla upp í lóðir með brotajárni og úrgangi og það mega guðirnir einir vita hverskonar eiturefni eru grafin í jörð undir Leirutanga, sem í dag hýsir fuglaparadís… og steypustöð.
En mönnum hefnist reyndar stundum fyrir það að grafa bara yfir sinn sóðaskap og halda þar á eftir að hann sé um alla eilífð horfin. Líkt og þessi saga segir okkur heilli öld eftir að Þormóðseyrar ósóma Álalækurinn var grafin í jörð:
Álalækurinn! Er dularfullur vandræðalækur
Ýmsar minningar um Siglfirska heimahúsa garða!
Þegar kemur að einmitt Siglfirskri garðrækt við heimahús, er mér einstaklega eftirminnilegt úr barnæsku leikjum, hvað ég var hrifin af trjágróðri, rifsberjarunnum og ýmsum skrautjurtum sem fólk lagði mikla alúð í að rækta í görðunum sínum norðan við Skriðustíg.
Í húsinu á horni Suðurgötu og Lindargötu bjó norska elskulega auka amma mín, hún Björk Hallgrímsson, en garðurinn hennar var einstaklega gróðursæll og mikill ævintýraheimur fyrir börn sem ólust upp á rykugum malargötum.
Við krakkarnir voru ansi dugleg við að læðast inn í vissa garða þar sem hægt var að norpa til sín t.d. radísum, rófum og jafnvel sjaldséðum jarðarberjum. Samt vorum við hvorki svöng eða mikið fyrir að borða hollt grænmeti heima. Þetta var skemmtileg dægrastytting, alveg á pari við gott dyraat.

Það var oft þannig að ýmsar nýjungar bárust heim á Sigló með erlendu fólki, sem hafði samanburð og reynslu af garðrækt frá sínum heimalöndum. Óhætt er einnig að segja að fyrstu 50 ár síðustu aldar hafi farið í allskyns tilraunastarfsemi varðandi hvaða jurtir, tré og blóm þyldu Íslenska veðráttu og jarðveg.
Alþýða landsins var nú líklega mest upptekin af sínu brauðstriti og lífsbaráttu og hafði þar af hvorki tíma eða efni á að fegra umhverfi sitt með blómum, flestir áttu nú samt kannski heima hjá sér eitt og annað fallegt stofublóm í potti og kannski kartöflu og rófu-garðskika upp í fjalli.
Úr barnæsku er mér einnig minnisstætt að hafa klifrað í og leikið mér mikið í litlum lauftrjáa lundi sunnan við gamla Möllershúsið, heima hjá langömmu Jónu Möller. Forsíðumyndin sem Steingrímur Kristinsson tók á sínum tíma, birtist ykkur hér aftur í fullri stærð.
Hún sýnir okkur einmitt næringarríkan reyk frá bræðsluverksmiðjum bæjarins og einnig þessi tré og langa grænmálaða flotta girðingu, sem kemur líklega árlega illa undan snjó. Henni var samt lengi vel haldið við og ætlunin er að verja blómabeðin við húsvegginn og þennan litla trjálund fyrir átroðningi frá ókunnugu fólki og… sauðfé.
Þetta þótti örugglega lengi vel einkennilegur óþarfi.

Langafi Christjan Ludvik Möller lögregluþjónn (F. 1887 – D. 1946) hefur líklega tekið með sér garðræktunar hugmyndir frá sínum heimahögum úr Möllershúsinu á Blönduós. Frænka mín sagði þegar hún sá þessa gömlu ljósmynd frá 1901:
“Já, langamma ræktaði blómagarð sem þótti afar sérstakt þá!“

Og auðvitað var það þannig lengi vel að garðrækt með fallegum girðingum var talið snobberí fyrir menntafólk og betri borgara samfélagsins.
Samt eru þarna í okkar Sigló heimahúsa garðasögu, líka til fjölmörg dæmi um frekar efnalítið hugsjónafólk og húsmæður sem lögðu mikið í sína garðrækt, en þetta áhugamál var ekki bara í höndunum á konum.
Því hér megum ekki gleyma að minnast á Magga á Ásnum, sem var langt á undan sinni samtíð í, en Magnús Eðvarðsson eins og hann hét fullu nafni var lengst af vörubílstjóri og að mörgu leyti merkilegur maður. Hann bjó alla tíð einn fyrir handan fjörð og var mikill frumkvöðull um allskyns blómarækt og náttúruvernd. Maggi var mikill vinur langömmu Jónu Möller og ég minnist þess að var unun að fá að koma inn í garðinn hans víð Árósa, alveg jafn dásamlegt eins og að koma inn í Eden í Hveragerði. Margar húsmæður, sem og aðrir áhugamenn um garðrækt skruppu eflaust oft yfrum og sóttu sér góð ráð og afleggjara hjá þessum ljúfa manni.
Einnig er vert að minnst á danska nágrannann hans Magga á Ásnum, Aage Nörgaard, en þrátt fyrir að hafa haft gervihönd á hægri handlegg, lét Aage ekkert aftra sér og hlóð hann heilmikla grjótskjólgarða fyrir sína garðrækt. Eldri Siglfirðingar minnast þess, þegar þeir voru guttar og hnupluðu rófum í garði Nörgaard, að þeir hefðu aldrei smakkað betri rófur.

Sjá meira hér: Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR.
Að lokum:
Nokkur orð um Garðyrkjufélag Siglufjarðar og…
Helvítis rollurnar!
“Eða… Sagan um þegar mamma var í blómastríði við rollur á Siglufirði í denn”

Þessi saga sem hér neðar er endursögð úr blogg skrifum Herdísar Sigurjónsdóttur sem birtust á siglo.is haustið 2010 og hún gerist að mestu leyti í uppáhalds barnæsku garði mínum, nánar tiltekið neðan við Laugarveg 15.
Sjálfur bjó ég á þessum árum við Hafnartún 6 og þar var garðurinn lengi vel bara moldarhaugar. Það var því algjör sæla fyrir mig að fá að koma í heimsókn og leika mér í litskrúðugu blómahafi, með þeim systkinunum, Kristínu, Jóhanni og Herdísi og fleirum suðurbæjarkrökkum.
Allt var leyfilegt í þessum dásamlega garði, svo framarlega sem ærslagangurinn skemmdi ekki blessuð blómin hjá garðeigandanum, Ásdísi Magneu Gunnlaugsdóttir. Blessuð sé minning hennar.
Hér verðum við einnig að minnast á stofnun Garðyrkjufélags Siglufjarðar.
“Garðyrkjufélag Siglufjarðar var stofnað þ. 3.júní 1976 og voru aðal hvatamenn þess þær Vilborg Jónsdóttir og Ásdís Gunnlaugsdóttur. Tilgangur félagsins er aðallega sá að örva áhuga Siglfirðinga til að halda görðum sínum í betri rækt og húsum sínum betur útlítandi, panta plöntur til gróðursetningar og fá í bæinn garðyrkjufólk sem gæti leiðbeint bæjarbúum hvernig best yrði staðið að því að fegra bæinn.” Sjá meira hér:
“Steinar og Vilborg á Hótel Höfn sótt heim“

Sagan um þegar mamma var í blómastríði við rollur á Siglufirði í denn
(Höfundur: Herdís Sigurjónsdóttir, 2010)
“Ég man ósköp vel eftir stríðsástandinu á Laugarveginum í denn og reyndar um allan bæ. Þegar rollur og garðaeigendur voru í stríði dag og nótt. Mamma og Steinar á Höfninni nágranni hennar “handtóku” einu sinni rollur sem höfðu étið garðablómin þeirra. Steinar hafði þá gleymt í svipinn að útsæðið hans var á gólfinu (líklega er hér átt við bílskúrsgólf) og VAR átti vel við því það var náttúrulega allt horfið þegar hann áttaði sig á þessari óvæntu heimsókn.
Einu sinni fór líka rolla í gegnum glerið á gróðurhúsinu hjá mömmu.
Það hefur trúlega verið Túlípana Móra sem var búin að koma sér upp tækni við að komast inn í garðinn hjá mömmu. Hún tók tilhlaup á eina tiltekna þúfu og sveif yfir girðinguna. Inn í blómaríki Ásdísar sem hefur örugglega verið paradís á jörðu fyrir rolluna.
Einu sinni teymdi mamma rolluna eitthvað suðureftir eitt kvöldið og hélt að þar með gæti hún farið að sofa. Hún stoppaði í útidyrunum fyrir neðan húsið í yndislegu sumarveðri og sá þá hvar rollan kíkti fyrir hornið hjá Hannesi Bald í Hafnartúninu og vissi greinilega alveg upp á sig sökina.
Það þarf vart að nefna það að mamma var á vaktinni alla nóttina.“

“Hún mamma mín sem er mikil blómakona var algjörlega búin að fá yfir sig nóg af þessu rollustríði.
Hún var búin að koma sér upp alls konar tækni til að vernda blómin. Hún setti til að mynda þvottabala yfir túlípanana eitt sinn og fór í sunnudagsgöngutúr. Þegar hún kom til baka voru þeir allir horfnir og bara berir stilkar eftir.
Mamma var meira að segja komin með pappírana og ætlaði að fá sér byssuleyfi..
… sem segir nú sitt um ástandið sem var á Siglufirði á þessum tíma.
Nú er sem sé búið að leyfa rolluhald á Sigló aftur. Ég hef ekki kynnt mér hvort hugmyndin var að minnka hirðu snjóflóðavarnargarðanna flottu eða hvort hobbíbændur hafa sótt í það að fara af stað. Ég veit bara að girðingar eru fæstar rolluheldar lengur og fæ því ekki sæluhroll fyrir hönd garðeigenda yfir þessari nýju stöðu svo mikið er víst.“
ATH. Þessi orð Herdísar eru skrifuð haustið 2010 og höfundur þessarar samantektar hefur ekki hugmynd um hvernig samlíf Siglfirskra garðeigenda og afkomenda Túlípana Móru gengur í dag, en ég hef samt heyrt sögur um að:
Túlípana Móra var ansi séð rolla, sem kenndi lömbunum sínum samviskulega tæknina við að komast inn í garða til að stunda þar gómsætt blómaát…
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá ljósmyndaranum og Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir í greinartexta.



