NorðurOrg 2022 fór fram í félagsheimilinu á Hvammstanga föstudagskvöldið 25. mars sl.

Um er að ræða landshlutakeppni þar sem atriði frá 5 félagsmiðstöðvum á Norðurlandi eru valin áfram til að taka þátt í söngkeppni Samfés sem fer fram laugardaginn 30. apríl. nk.

Yfir 300 unglingar frá félagsmiðstöðvum víðsvegar af Norðurlandi komu saman til að hlusta á keppendur og skemmta sér á balli á eftir.

“Við létum ekki okkar eftir liggja og sendum fulla rútu af stuðningskrökkum á Hvammstanga, en þetta er í fyrsta skiptið í tvö ár sem félagsmiðstöðvarnar ná að halda sameiginlegt ball. Var því gleðin mikil meðal unglinganna að fá loksins að hitta krakka úr öðrum félagsmiðstöðvum og rifja upp danstakana” segir á facebook síðu Tónlistarskólans á Tröllaskaga.

Félagsmiðstöðin Týr á Dalvík átti eitt þeirra 5 atriða sem komst áfram.

Keppendur félagsmiðstöðvarinnar í ár voru þær Íris Björk Magnúsdóttir og Úlfhildur Embla Klemenzdóttir. Stelpurnar sungu lagið Riptide eftir Vance Joy. Þá sáu þær einnig alfarið um undirspil, en Íris Björk spilaði á gítar og Úlfhildur Embla á ukulele, en báðar hafa þær lært á hljóðfæri og söng við Tónlistarskólann á Tröllaskaga.

Sjá nánar á facebook síðu Tónlistarskólans á Tröllaskaga og samfes.is

Mynd/TAT