Þau komu heldur betur færandi hendi frá Siglufirði á föstudaginn hjónin Njörður Sæberg Jóhannsson og Björg Einarsdóttir er þau færðu Grýtubakkahreppi að gjöf líkan af hákarlaskipinu Felix á Látrum.

Felix var frægt aflaskip á sínum tíma og gerður út á hákarl.

Eigandi bátsins, Jónas Jónsson bóndi á Látrum, smíðaði hann sjálfur 1850 eða 1851. Þetta var sexæringur, sem þó var hægt að róa með fjórum árum á borð, með skonnortusiglingu og rúffi framan og aftan.

Um 1876 var hann stækkaður og dekkaður. Rétt fyrir aldamótin var hann rifinn.

Líkanið er af bátnum eins og hann var upphaflega, smíðað nákvæmlega eftir þeim málum sem á honum voru, nema hvað fetum er breytt í tommur.

Líkanið er nákvæmt í ítrustu smáatriðum, allt frá kili upp á siglutopp. Þarna eru segl eins og voru, stög og blakkir, stýrisbúnaður, lifrarkassar og legufæri, öll veiðarfæri, blöndukútur og matar- og eldiviðarkistur og rúff eru innréttuð. Í framrúffinu má sjá kabyssu og uppbúnar kojur.

Þetta var óvænt gjöf og er vel þegin. Þegar smíðaður hefur verið vandaður skápur með glerhurð til að forða Felix frá rykfalli og fikti forvitinna handa verður honum komið fyrir í Grenivíkurskóla þar sem allir geta séð hann og hann getur orðið kveikja að umræðum um lífsbaráttu forfeðra okkar og verkmenningu sem löngu er horfin.

Hákarlaskipið Felix, líkan sem Njörður Sæberg Jóhannsson gerði

Forsíðumynd: Njörður Sæberg Jóhannsson við líkanið sem hann gerði af Felix.

Aðsent.