Akureyri hefur ratað efst á óskalista þeirra erlendu ferðamanna sem vilja njóta svalara loftslags í sumar, en sífellt fleiri leita nú að áfangastöðum norðar á hnettinum vegna vaxandi hita í sunnanverðri Evrópu og víðar þar sem hitamet eru slegin hvert á fætur öðru.
Þessi þróun veldur því að sífellt fleiri horfa til áfangastaða þar sem hitastig er hóflegt og mannfjöldi minni en á vinsælum sólarstöðum suður á meginlandinu.
Fréttastofa RÚV greindi frá þessu um helgina og vitnaði þar í úttekt bresku ferðaskrifstofunnar Inghams. Þar kemur fram að Akureyri er í efsta sæti yfir þá áfangastaði sem taldir eru áhugaverðastir fyrir ferðamenn sem vilja komast undan miklum sumarhita.
Sókn ferðamanna til svæða með svalara loftslag hefur aukist verulega undanfarin ár, samhliða vaxandi hita og tíðari hitabylgjum í Evrópu, þar sem sumarhitinn nær gjarnan yfir 30°C og jafnvel 40°C á vinsælum ferðamannastöðum. Þessi ferðalög til svalari staða hafa fengið heitið „kælifrí“ eða coolcation, sem er samsett úr orðunum cool og vacation.
Leitin að þessu hugtaki hefur aukist meira en sexfalt á leitarvélum á þessu ári. Í kjölfarið framkvæmdi Inghams úttekt á eftirsóttustu áfangastöðum fyrir þá sem kjósa að eyða sumarleyfinu við svalara veðurfar – og þar lenti Akureyri í efsta sæti.