Já, á þessum tímum innanlandsferða verður maður að finna sér ýmislegt athyglisvert að skoða og fara á staði sem maður hefur hugsað sér að gera lengi.

Plataði Sölva Þór yngri son minn með mér í 800 km skemmtilega helgarferð og markmiðið var að heilsa upp á 82 ára gamlan vin minn sem á Ljósmyndavélasögusafn í litlum bæ sem heitir Olofström í Blekingesýslu.

En í sama húsi er líka furðulegt safn en þar eru þúsundir af allskyns HERÐATRJÁM til sýnis.

Við fórum síðan og gistum á farfuglaheimili á ótrúlega fallegum stað sem heitir Halens camping og þar sér maður hvernig húsvagnafólkið plantar sér og sínum vögnum. Því þrátt fyrir að allir hafi hjól þá er greinilegt að sumir hafa ekki farið neitt í áratugi.

Myndavélasafn

Sölvi Þór Jónsson við Myndavéla og Herðatréssafnið í Olofström og í bakgrunninum er fallegur lystigarður en það skemmir nokkuð fyrir umhverfinu og kyrrðinni að það liggur þjóðvegur gegnum miðjan garðinn.

Strax í anddyrinu grípur mann tilfinning um að maður sé komin aftur í tíman því upplifunin er eins og klífa inn í gamla „ljósmyndavöruverzlun“ þar sem allt sem tilheyrði „analog“ ljósmyndun er til sölu.

En ekkert af þessu verður skrítið þegar eigandinn Nils-Harald Ottosson hittir mig í lystigarðinum bak við safnið, því við verðum að fara varlega í þessum Kórónavírus faraldri, hann er rétt að verða 83 ára.

Nils-Harald Ottosson vinur minn og eigandi safnsins.

Hann hefur alla ævi verið í ljósmyndbransanum, fæddur inn í þetta og fór ungur að vinna hjá föður sínum en stofnaði síðan eigið. Mikið af þeim munum sem eru á safninu koma úr sögu fyrirtækisins og það er einstaklega gaman að sjá ýmsar gamla auglýsingamuni sem maður man eftir úr denn.

Það er unun að hlusta á hann segja frá og hann kann ALLT um þessi gömlu flóknu tæki og tól og hann minnir mig svo á álíka gamlan vin minn sem heitir Steingrímur Kristinsson sem þið Íslendingar getið hitt daglega á Saga Fotografica ljósmyndasögu safninu á Siglufirði.

Stórkostlegir fræðimenn báðir tveir.

Við Nils-Harald höfum spjallað mikið á netinu og í síma gegnum árinn og hann hefur selt mér og gefið ýmislegt sem ég hef síðan komið áfram á safnið á Sigló.

Og rétt eins og í safninu á Sigló stendur þessi risastóra Hesco Multiflex myndavél í við dyrnar í Olofsström safninu.
Framleidd af Hugo Svensson í Gautaborg 1930 og eitthvað.

Instamatic myndavélarnar frá Kodak gáfu loksins öllum möguleika að taka myndir og að fá ódýra framköllun líka.
Þessir flasskubbar gátu verið varasamir en þeir gátu bæði sprungið og smellt af flassi í vitlausa átt, beint i augað á ljósmyndaranum

Flasskubbar og perur af öllum stærðum og gerðum.
Filmur af öllum mögulegum stærðum og gerðum.
Leikfanga og auglýsingamyndavélar.
Og allt fyrir heimabíókvöldið.
Eða Slidesmyndakvöld….

En nú er komið að því að kveðja Nils-Harald og safnið hans og kíkja á Herðatrés safnið í sama húsi. Það er vinur Nils-Haralds sem er víst mjög svo sérstakur karakter sem á þetta magnaða herðatréssafn en hann á víst 300.000 bækur líka.

Herðatréssafn

Litrík og “blúndu” herðatré af ýmsum stærðum og gerðu.
Nokkur af fínni gerðinni….
Vönduð Lúxusherðatré!

Og að loknum góðum degi….
Hvíld á fallegum stað þar sem sumum húsvögnum líður svo vel að þeir fara aldrei neitt.

Sölvi Þór við Halen vatnið.
Húsvagnssumarbústaður með ÖLLU. Spjallaði aðeins við eigendur en þau hjónin eru búin að leigja þetta pláss í 34 ár.
En sumir vildu frekar vera meira “prívat” og leigja sér eigin skógarlund.

Lifið heil og bestu kveðjur.

Nonni Björgvins

Aðrar sögur og greinar eftir Jón Ólaf Björgvinsson á trolli.is.

Texti og ljósmyndir:
Jón Ólafur Björgvinsson

Heimildir:
Vísað er í heimildir með slóðum í texta.