Lögreglunni Norðurlandi vestra hafa borist áreiðanlegar upplýsingar þess efnis að hlaupbangsar eða hlaupkubbar sem innihalda fíkniefni séu í umferð á svæðinu.

Þarna er um grafalvarlegt mál að ræða en eins og nýleg dæmi sanna er þarna um að ræða mjög hættuleg efni.

Lögregla lítur málið alvarlegum augum og biður fólk um að vera á varðbergi gagnvart þessum ófögnuði. Ef einhverjir kunna að búa yfir upplýsingum um málið þá er skorað á þá að hafa samband við lögregluna.


Vakin er athygli á því að allar upplýsingar eru meðhöndlaðar sem trúnaðarmál. Eins má koma upplýsingum nafnlaust í Upplýsinga-/fíkniefnasímann 800 5005.

Þegar hringt er í upplýsingasímann svarar talhólf. Þar getur þú lesið inn þær upplýsingar sem þú vilt koma á framfæri við lögreglu. Hægt er að gefa upplýsingarnar upp nafnlaust. Ef lögreglu er heimilt að hafa samband eða þú óskar þess þarf að taka það fram og gefa upplýsingar um nafn, símanúmer eða netfang. Einnig má hafa samband í gegnum netfangið info@rls.is.

Því er við að bæta að þrjú fíkniefnamál hafa komið upp á svæðinu síðan á mánudag og eru þau upplýst.