Eftirfarandi fréttatilkynning barst í dag frá Fiskideginum mikla:
20 ára afmæli Fiskidagsins mikla bíður enn um sinn.
Eins og margir vita þá var Fiskidagurinn mikli 20 ára í ágúst 2020 en hátíðinni var frestað vegna kórónuveirunnar. Á stjórnarfundi Fiskidagsins mikla 29. mars s.l. var tekin ákvörðun um að fresta Fiskideginum mikla aftur og að fréttatilkynning yrði send út 15. apríl sem er sami dagur og við tilkynntum frestunina 2020. Ákvörðunin er tekin að vel ígrunduðu máli. Við stefnum ótrauð á afmælishátíð í ágúst 2022.
Fiskidagurinn mikli er þannig uppbyggður að við getum aldrei stjórnað fjölda þeirra gesta sem sækja okkur heim, við getum ekki skipt upp í hólf, ekki haft fjarlægðarreglur, og svo framvegis. Fiskidagurinn mikli sem er matarhátíð er ekki haldinn fyrr en grímunum hefur verið sleppt og ótakmarkaður gestafjöldi leyfður og að gestir geti knúsast áhyggjulaust að hætti Fiskidagsins mikla svo að fátt eitt sé nefnt. Það kostar mikla vinnu að skipuleggja svona stóra hátíð og óvissan er of mikil til þess að leggja af stað í þetta stóra verkefni. Við tökum enga áhættu og sýnum ábyrgð í verki, við teljum að það verði ekki kominn tími til að safna saman 30.000 manns eftir 3 mánuði.
Enn og aftur þökkum við á annahundrað styrktaraðilum okkar fyrir stuðninginn og frábært samstarf undanfarin ár og það er einlæg ósk okkar þeir yfirgefi okkur ekki og komi ferskir að vanda með okkur á árinu 2022.
Verið velkomin á Fiskidaginn mikla í ágúst 2022 þegar við höldum uppá 20 ár afmælið.
Með baráttukveðjum frá stjórn Fiskidagsins mikla í Dalvíkurbyggð.
Júlíus Júlíusson
Framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla
Mynd: Bjarni Eiríksson