Samið við 23 sveitarfélög um styrki til ljósleiðaravæðingar í dreifbýli.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Páll Jóhann Pálsson, formaður fjarskiptasjóðs, og forsvarsmenn sveitarfélaga, skrifuðu í dag undir samninga um samvinnustyrki frá fjarskiptasjóði og byggðastyrki frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu til ljósleiðaravæðingar sveitarfélaga í tengslum við landsátakið Ísland ljóstengt. Fjórtán sveitarfélög eiga að þessu sinni kost á byggðastyrk á grundvelli byggðaáætlunar og 22 sveitarfélög eiga kost á samvinnustyrk.Samningarnir gefa 23 sveitarfélögum kost á samtals um 1.475 milljónum króna í styrki á árunum 2019 til 2021 til þess að tengja með ljósleiðara allt að 1.700 styrkhæfa staði auk fjölda annarra bygginga samhliða sem ekki hljóta styrk. Eigið framlag sveitarfélaga/íbúa er umtalsvert og að lágmarki 500.000 kr. fyrir hvern tengdan styrkhæfan stað. Samningar árin 2020 og 2021 eru með fyrirvara um fjárlög.Styrkveitingarnar miðast við að tryggja verklok hjá allflestum sveitarfélögum sem um ræðir og þar með að náð verði að mestu leyti markmiði ríkisstjórnarinnar um ljósleiðaravætt dreifbýli landsins. Stefnt er að því að lokaúthlutun á grundvelli Ísland ljóstengt verði á næsta ári með það að markmiði að öll áhugasöm sveitarfélög ljúki lagningu ljósleiðara í dreifbýli fyrir árslok 2021 hið síðasta.Verkefnið Ísland ljóstengt hófst formlega vorið 2016. Er þetta því fjórða úthlutun fjarskiptasjóðs og jafnframt þriðja úthlutun ráðuneytisins á grundvelli byggðaáætlunar á jafn mörgum árum.

Útlit er fyrir að verkefnið nái þegar upp er staðið til um það bil 5.850 – 6.000 styrkhæfra staða um allt land. Með þessum og fyrri samningum er þegar búið að semja um 5.750 staði. Hlutfall styrkhæfra staða sem tengdir verða í verkefninu öllu stefnir í að verða vel yfir 90%.

Yfirlit um styrki í tengslum við Ísland ljóstengt

Ísland ljóstengt Samvinnustyrkir Byggðastyrkir     Fj. staða
Bláskógabyggð 132.929.032 14.000.000 230
Bolungarvíkurkaupstaður 3.440.000 11
Borgarbyggð 506.600.000 20.000.000 440
Dalabyggð 17.100.000 12.000.000 20
Fjarðabyggð 13.000.000 0
Fljótsdalshérað 213.075.289 20.000.000 294
Flóahreppur 32.160.000 67
Hrunamannahreppur 32.438.710 81
Húnaþing vestra 58.400.000 10.000.000 57
Ísafjarðarbær 14.577.672 10.000.000 26
Langanesbyggð 10.100.000 10.000.000 14
Mosfellsbær 10.960.000 22
Norðurþing 32.679.132 61
Reykhólahreppur 8.640.000 12
Reykjavíkurborg 48.960.000 131
Skaftárhreppur 17.700.000 8.000.000 22
Strandabyggð 2.800.000 2.000.000 2
Súðavíkurhreppur 5.520.000 3.000.000 6
Sveitarfélagið Árborg 28.080.000 26
Sveitarfélagið Hornafjörður 30.400.000 17.000.000 39
Sveitarfélagið Skagafjörður 70.781.800 10.000.000 88
Tálknafjarðarhreppur 3.240.800 11
Vesturbyggð 40.800.000 5.000.000 42
1.321.382.435 154.000.000 1.702

 

Af stjornarradid.is