78. Héraðsþing USVH var haldið miðvikudaginn 20. mars í Félagsheimilinu á Hvammstanga.

UMF. Kormákur sá að þessu sinni um framkvæmd þingsins. Góð mæting var á þingið en það mættu fulltrúar frá öllum aðildarfélögum, samtals 27 þingfulltrúar af þeim 32 sem áttu rétt til setu á þinginu. Miklar og góðar umræður voru á þinginu um starf sambandsins.

Stjórn kynnti meðal annars Handbók USVH sem er hluti af því að USVH geti gerst fyrirmyndarhérað ÍSÍ á næstu vikum. Mjög vel var tekið í tillögu stjórnar USVH þar sem aðildarfélög voru hvött til að gerast fyrirmyndarfélög ÍSÍ og vilja félögin sjálf hefja vinnuna strax á þessu ári.

Undanfarin tvö héraðsþing hefur stjórn USVH stýrt umræðu um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Húnaþingi vestra. Var markmið stjórnar að íþróttahreyfingin á svæðinu myndi sameinast um að þrýsta á sveitarfélagið til uppbyggingar á aðstöðumálum. Þannig að í stað þess að margar greinar væru að þrýsta á aðstöðu fyrir sína íþróttamenn myndu félögin sameinast um hvað það væri sem byrja ætti á. Fyrst var gerð skoðunarkönnun fyrir íbúa í Húnaþingi vestra um aðstöðumál sem nýtt var til umræðu á þingi 2017 og á sama þingi fór fram hópavinna þar sem einn hópur ræddi aðstöðumálin og aðrir hópar stefnumótun USVH sem nýtt var svo í fyrrgreinda Handbók USVH.  Á þinginu 2018 voru niðurstöður þessarar vinnu kynntar og umræða fór fram um aðstöðumál í framhaldi af því.

Í byrjun þessa árs hittust formenn aðildarfélaga sem sammæltust um að eftirfarandi tillaga yrði lögð fram á þinginu á þessu ári. Telur stjórn USVH að um sé að ræða tímamótatillögu þar sem öll aðildarfélög koma saman og sammælast um að hefja eigi uppbyggingu eins félags. Var tillagan samþykkt samhljóða.

78. Héraðsþing USVH haldið í Félagsheimilinu á Hvammstanga 20. mars 2019 þakkar sveitarfélaginu Húnaþingi vestra fyrir góðan stuðning og styrki til íþrótta- og æskulýðsstarfs en hvetur jafnframt sveitarfélagið til þess að setja fjármagn í stækkun og breytingu á hringvelli Hestamannafélagsins Þyts til þess að hann samræmist þeim kröfum sem gerðar eru í dag í keppni gæðinga.  

Á nýloknu þingi var einnig samþykkt að hvetja sveitarfélagið til að vinna að því að verða heilsueflandi samfélag og vera leiðandi í því á Norðurlandi vestra. Tilkynnt var á þinginu að UMF. Dagsbrún væri orðið óvirkt félag í bili.  Engar breytingar urðu á stjórn nema að nýr varamaður kom inn, Þorbjörg Helga Sigurðardóttir fyrir hönd UMF. Hörpu. Næstu verkefni sambandsins eru útgáfa ársritsins Húna á vormánuðum, Kvennahlaupið í júní og síðan er stefnt á á góða þátttöku á Unglingalandsmótinu á Höfn í Hornafirði og Landsmóti 50+ í Neskaupstað. Stjórn USVH hvetur alla til virkrar þátttöku á þessum mótum.

 

Af usvh.is