Í vetur hefur barna- og unglingastarf Hestamannafélagsins Glæsis verið í miklum blóma undir stjórn Herdísar á Sauðanesi.

Eldri krakkarnir í Glæsi hafa lagt stund á svokölluð Knapamerki en tilgangurinn er að þjálfa bæði knapa og hesta. Hafa þau lokið Knapamerki 1 og 2 en knapamerkin eru 5 og verður haldið áfram með Knapa 3 næsta haust. Námið er samið af Háskólanum á Hólum og hefur kennari frá Dalvík komið einu sinni í viku.  Ramminn hefur styrkt  félagið vegna námskostnaðar iðkenda.

Yngri krakkarnir hafa verið duglegir að æfa reiðfimi. Þeir hafa unnið stóra persónulega sigra og öðlast aukið sjálfstraust. Með styrk Fiskmarkaðs Siglufjarðar og Aðalbakarans hafa æfingar staðið yfir á laugardögum í vetur. Sérútbúin hnakkur með bakstuðningi sem keyptur var m.a. með stuðningi Menningar-og samfélagssjóðs hefur sannað gildi sitt og gert öllum börnum kleift að fara á hestbak og taka þátt.

Iðkendur hafa verið ötulir við að kenna hestum sínum skemmtilegar æfingar og verða með sýningu í Reiðhöllinni í hesthúsahverfinu á Siglufirði, laugardaginn 11. maí og hefst hún kl. 14.

Þar munu reiðmenn framtíðar sýna það sem þeir og hestar þeirra hafa lært í vetur. Eru allir hvattir til að mæta. Kaffiveitingar á eftir.

 

 

 

Myndir: aðsendar