Á 648.fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var samþykkt að endurskoða synjun á erindi um leigu á tækjum og tólum úr líkamsræktum sveitarfélagsins í ljósi þess að líkamsræktarstöðvar verða ekki opnaðar almenningi í bráð.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála, dags. 24.04.2020 ásamt lista yfir handlóð og ketilbjöllur sem hægt væri að leigja út en fyrir liggur að nemendur unglingadeildar Grunnskóla Fjallabyggðar munu nýta aðstöðu, tæki og tól líkamsræktar í Ólafsfirði.

Bæjarráð samþykkir að leigja út handlóð og ketilbjöllur úr líkamsræktinni á Siglufirði. Útleigu verði háttað með eftirfarandi hætti.

Deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála er falið að vinna málið áfram ásamt forstöðumanni íþróttamannvirkja.

– Lóð verða ekki leigð nema í 2-3 vikur til að byrja með og þau þurfi að vera komin í hús 20. maí, þar sem nú bendir flest til þess að líkamsræktarsalir opni í lok maí.
– Leiguverð pr. stykki verður 500 kr. fyrir vikuna. 2 handlóð eru þá leigð á 1000 kr. pr. viku.
– Deildarstjóra er falið að útbúa eyðublað, „leigusamning“ þar sem fram koma ákvæði um ábyrgð hvað varðar skemmdir eða annað tjón, t.d. ef lóð glatast. Leigjendur leggja fram númer greiðslukorts á samninginn til tryggingar fyrir tjóni.
– Greiðslufyrirkomulag, greitt verður eftir á með útsendum reikningum.